Fyrr í dag uppgötvaðist bilun í netþjónustu í hýsingarumhverfi Advania sem hefur valdið því að hluti viðskiptavina fyrirtækisins, þar á meðal opinberir aðilar, fundu fyrir truflunum á neti í dag. Þetta segir Þóra Tómasdóttir, fjölmiðlafulltrúi Advania.
Þóra segir að ef fyrirtæki eða stofnanir sem eru í viðskiptum við Advania finna fyrir truflunum á neti þá sé bilunin ástæða þess. Þá lágu einnig niðri vefsvæði dómstóla landsins.
„Sérfræðingar Advania hafa greint vandann og vinna hörðum höndum að úrlausn hans,“ segir hún og bætir við að aðgerðum miði í rétta átt. Hluti vefsvæðanna, þar á meðal vefur stjórnarráðsins, er kominn í lag.
„Okkur þykir þetta mjög leitt og við biðjumst velvirðingar á truflunum sem þetta getur haft í för með sér.“ Frekari upplýsingar um bilunina má finna á advania.info.
Hvernig getur þetta gerst?
„Ég í raun get ekki sagt meira um málið að svo stöddu. Við förum í greiningarvinnu á síðari stigum,“ segir hún og þá gæti verið frekari skýringa að vænta.