Framvæmdir á lóðinni við Valhöll eru hafnar og hafa nú þegar trén sem umkringja lóðina fengið að fjúka. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir við Morgunblaðið að enn sem komið er gangi allt eftir áætlun.
„Framkvæmdir ganga vel, en það má gera ráð fyrir því að svona uppbygging taki um 18 til 24 mánuði þótt það geti vel verið að þeir verði sneggri að þessu,“ bætir Þórður við.
Umræddar framkvæmdir eru til uppbyggingar skrifstofubyggingar og íbúðarhúsnæðis við Háaleitisbraut 1, en þær voru samþykktar á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í lok ársins 2019. Valhöll er á lóðinni en þar má finna skrifstofur Sjálfstæðisflokksins auk tannlæknastofu.
Framkvæmdir á lóðinni munu taka mið af þéttingu byggðar því við Valhöll eru nú 88 bílastæði en þau verða 125 og hjólastæðum fjölgar úr engu í 115. Húsið verður 5.000 fm, með 48 íbúðum og byggt á 5-6 hæðum.