Funda daglega um stöðu bráðamóttöku

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það viðvarandi verkefni að tryggja …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það viðvarandi verkefni að tryggja mönnun til framtíðar innan heilbrigðiskerfisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við einsetjum okkur að ná utan um þetta í eitt skipti fyrir öll, aðgerðir eru þegar farnar í gang,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

Willum tilkynnti 10. júní nýjan starfshóp heilbrigðisráðuneytisins til að bregðast við neyðarástandinu á bráðamóttöku Landspítalans og víðar í heilbrigðiskerfinu.

„Við erum búin að kalla saman aðila frá öllum þeim sem sinna heilbrigðisþjónustu á landinu. Það er fundað daglega og verið að setja skemmri tímaviðbrögð sem snúa mikið að innri verkferlum og stuðningi við starfsfólk og mönnun til að komast í gegnum sumarmánuðina.

Síðan snýr þetta að því sem kallað er flæði, að dreifa álaginu betur og það kemur að öllum öðrum stofnunum,“ segir Willum um starfshópinn.

Viðvarandi verkefni að tryggja mönnun til framtíðar

„Þegar við höfum farið í gegnum faraldurinn og það hefur verið mikið álag á heilbrigðisstarfsfólki og það sem gerist þegar ómíkron bylgjan hjaðnar og samfélagið fer á fullt að þá erum förum við hér innanlands á fulla ferð og svo koma ferðamenn í auknum mæli. Þá eykst slysatíðni og álagið birtist meðal annars þarna, á bráðamóttökuninni.

Við erum með þennan takmarkaða mannauð sem í raun og veru er alltaf að taka þetta á sig. Það er líka viðvarandi verkefni að tryggja hér mönnun til framtíðar og átta sig á því hver hin rétta mönnun er miðað við það þjónustustig sem við viljum veita,“ segir heilbrigðisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert