Hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir nauðgun

Samsett mynd

Landsréttur hefur dæmt karlmann í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun. Þar með var dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu frá því fyrir ári síðan þyngdur um hálft ár.

Landsréttur dæmdi manninn til að greiða konunni sem hann nauðgaði 1,8 milljónir króna í miskabætur en héraðsdómur hafði áður gert honum að greiða henni 1,5 milljónir í bætur. Konan krafðist 2,5 milljóna króna í bætur.

Brotið átti sér stað í nóvember 2019.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft samræði við konuna þegar hún lá sofandi í rúmi hans. Hann hafi notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum vegna áhrifa fíkniefna, lyfja og svefndrunga.

Í dómi Landsréttar var rakið að fyrir héraðsdómi hafi maðurinn sagt að samræði hans við konuna hafi  verið með samþykki hennar.  Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi hann aftur á móti sagt að konan hafi sofnað þegar hann var að byrja að hafa við hana samræði og verið sofandi meðan á því stóð.

Enginn vafi um sakhæfi

Við rannsókn málsins gekkst maðurinn undir geðheilbrigðisrannsókn og var niðurstaðan sú að enginn vafi væri um sakhæfi hans en erfitt væri að sjá að refsing myndi bera árangur.

Sálfræðingur var einnig fenginn til að meta hvort og þá hversu mikið þroskafrávik, skortur á félagslegu innsæi og dómgreindarskortur hans hefðu haft áhrif á hann á verknaðarstundu og hins vegar samskipti hans við konuna í framhaldinu. Fram kom í matsgerð að ekki leiki vafi á því að „þeir erfiðleikar sem fram komi hjá ákærða á sviði almenns skilnings, rökhugsunar og ályktunarhæfni valdi því að hann hafi verulega takmarkaðan skilning á þeirri ákæru sem hann sætir og hegðun hans og háttsemi á verknaðarstundu“.

Í dómi héraðsdóms kom fram að maðurinn hafi glímt við ýmis vandamál: „Hann er greindur með ADHD, þroskahamlaður, með væg merki um heilaskaða., með persónuleikaröskun og vissa siðblindu. Hins vegar virðist ákærði skilja reglur og lög samfélagsins og hann veit mun á réttu og röngu. En ákærði hefur sjálfur með líferni sýnu á vissan hátt ýtt undir þau neikvæðu andlegu einkenni sem hann glímir við og þá aðallega með neyslu vímuefna.“

Landsréttur mat manninn sakhæfan og að hegningarlög stæðu ekki í vegi fyrir því að honum yrði gerð refsing.

„Með hliðsjón af fyrirliggjandi matsgerðum og vitnisburði matsmanna í héraði og fyrir Landsrétti og högum ákærða, eins og þeim er lýst í héraðsdómi og hér að framan, þykir rétt að neyta framangreindrar heimildar og skilorðsbinda fullnustu refsingar hans í fimm ár frá uppsögu þessa dóms,“ segir í dómi Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert