Hornafjörður sýknaður af kröfum Ice Lagoon

Málið varðar skaðabótaskyldu sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna ákvarðana þess frá 2014 …
Málið varðar skaðabótaskyldu sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna ákvarðana þess frá 2014 og 2015 um að veita Ice Lagoon ekki stöðuleyfi fyrir hjólhýsi við austurbakka Jökulsárlóns. mbl.is/RAX

Landsréttur sýknaði í dag Hornafjörð af kröfu Ice Lagoon um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sveitarfélagsins vegna tjóns í rekstri Ice Lagoon og um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna ólögmætra aðgerða sveitarfélagsins sem byggt hefðu á ákvörðunum frá árunum 2010, 2014 og 2015.

Héraðsdómur Austurlands dæmdi Ice Lagoon í vil árið 2020 og viðurkenndi skaðabótaskyldu sveitarfélagsins vegna ákvarðana þess frá 2014 og 2015 um að veita félaginu ekki stöðuleyfi fyrir hjólhýsi við austurbakka Jökulsárlóns. Kröfu Ice Lagoon vegna ákvörðunar sveitarfélagsins árið 2010 var hins vegar vísað frá dómi þar sem sú krafa hafði fyrnst.

Landsréttur vísaði kröfu Ice Lagoon frá árinu 2010 einnig frá sökum fyrningar en vísaði einnig frá kröfum fyrirtækisins um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna ólögmætra aðgerða sveitarfélagsins vegna ákvarðana þess frá árunum 2014 og 2015 frá dómi vegna vanreifunar.

Bindandi niðurstaða

Dómi Landsréttar var í framhaldinu áfrýjað til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar var fellt úr gildi ákvæði dóms Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi á viðurkenningarkröfu Ice Lagoon á skaðabótaskyldu sveitarfélagsins vegna ætlaðs tjóns í rekstri  fyrirtækisins.

Í dómi Landsréttar sem kveðinn var upp í dag segir að Landsréttur taldi að þegar málið var höfðað væri fallin niður, fyrir fyrningu, sú fjárkrafa sem Ice Lagoon hefði getað haft uppi í kjölfar viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem leitt kynni að hafa af umdeildri ákvörðun sveitarfélagsins árið 2010.

Þá hefði sveitarfélagið verið sýknað af viðurkenningarkröfu Ice Lagoon vegna ákvarðana þess 2014 og 2015. Væri sú niðurstaða bindandi um úrslit sakarefnisins milli aðila og fyrir réttinn og var sveitarfélagið því sýknað af kröfum Ice Lagoon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert