Komu Frökkum til bjargar

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út fyrr í kvöld til þess að hafa uppi á frönsku ferðafólki, sem hafði sent frá sér neyðarboð. Í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að henni hafi borist um fjögurleytið í dag tilkynning frá franskri neyðarþjónustu um að  neyðarsendir, sem væri í vöktun hjá þeim, hefði farið í gang og væri hann staðsettur á hálendinu norðan Vatnajökuls.

Kom í ljós við nánari skoðun á staðsetningu, að allt benti til að sendirinn væri í nálægð við fjallaskálann í Gæsavötnum. „Reynt var með öllum ráðum að ná sambandi við þann aðila sem var með þennan sendi en án árangurs. Á þessum árstíma er illfært um þetta svæði sökum bleytu og drullu og því ekki auðvelt að nálgast verkefnið úr byggð. Rannsóknarvinna leiddi í ljós að hér væri líklega um franskt par að ræða sem hefði lagt upp frá Mývatnssveit fyrr í vikunni,“ segir í tilkynningunni. 

Var því óskað eftir aðstoð frá Landhelgisgæslunni um að fá þyrlu í verkefnið samhliða því að aðgerðastjórn var virkjuð á Húsavík og björgunarsveitir voru ræstar út í Mývatnssveit og Aðaldal til að halda landleiðina á vettvang. Kom þyrlan í Gæsavötn laust fyrir kl. 20:00 og hitti áhöfn hennar á fólkið þar sem tók henni fagnandi. Var fólkið óslasað en blautt og hrakið. Höfðu þau náð að leita skjóls á staðnum á meðan beðið var eftir aðstoð. Þyrlan flutti þau síðan með sér til Reykjavíkur.

„Þökkum við öllum sem að þessu verkefni komu fyrir aðstoðina en ljóst er að veðráttan sl. daga hafði reynt verulega á þessa ferðalanga, hitastig við og undir frostmarki og norðanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu,“ segir í tilkynningunni. 

Með tilkynningunni fylgdi eftirfarandi kort af svæðinu og er rauði depillinn á þeim stað þar sem fólkið hélt til á meðan beðið var eftir aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka