Kyn lögmanna hafi áhrif á dómsmál

mbl.is/Styrmir Kári

Þverfagleg rannsókn á sviði félagsfræði og lögfræði gefur til kynna að kyn lögmanna, óháð kyni dómara, hafi þýðingu og að kvenkyns málflytjendur auki líkur á að mál falli umbjóðendum þeirra í vil, hvort sem málflytjendur séu að vinna til sóknar eða varnar.

Rannsóknin gefur einnig til kynna að aldur dómara virðist hafa þýðingu fyrir úrslit mála. Dómarar 50 ára og eldri séu líklegri til að dæma varnaraðila í vil, óháð öðrum þáttum.

Rannsóknin snerist um að greina upplýsingar yfir tíu ára tímabil um kynferði og aldur dómara og málflytjenda í dómsúrlausnum í einkamálum sem kærðar hafa verið eða áfrýjað til Hæstaréttar og Landsréttar. Þessir þættir voru rannsakaðir í tengslum við úrslit dómstólanna.

Vona að niðurstöður gagnist jafnréttisumræðu

Rannsóknin var unnin af Valgerði Sólnes, dósent í lagadeild Háskóla Íslands, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, Benedikt Bogasyni, prófessor í lagadeild Háskóla Íslands, og Kjartani Vífli Iversen, rannsóknamanni hjá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Í útdrátti rannsóknarinnar stendur að hér á landi hafi hingað til ekki verið rannsakað hvort og þá hvaða tengsl séu á milli kynferðis og aldurs dómara og málflytjenda annars vegar og niðurstaðna dómsúrlausna hins vegar.

Það sé von rannsóknaraðila að niðurstöðurnar gagnist umræðu um jafnrétti og starfsemi dómstóla og hvetji til rannsókna á því sviði.

Háskóli Íslands. Ásamt kyni lögmanna virðist aldur dómara einnig hafa …
Háskóli Íslands. Ásamt kyni lögmanna virðist aldur dómara einnig hafa áhrif á það hvert dómur fellur. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert