Laugavegurinn skemmtiganga miðað við Esjumaraþon

Höskuldur Kristvinsson þegar hann tók þátt í Mt. Esju Ultra …
Höskuldur Kristvinsson þegar hann tók þátt í Mt. Esju Ultra hlaupinu á laugardaginn. Ljósmynd/Stefán Bragi Bjarnason

„Ég fór í járnkarl í Kaupmannahöfn fyrir þremur árum og ég hef í raun ekkert hjólað síðan eða synt. Ég held ég sé búinn að setja hjólið á hilluna,“ segir Höskuldur Kristvinsson, sem hefur þó ekki sagt skilið við hlaupaskóna, en hann kláraði erfiðasta fjallamaraþon Íslands á laugardaginn.

Höskuldur hljóp sinn fyrsta járnkarl árið 2009 og svo aftur árið 2012. Hann lauk tvöföldum járnkarli árið 2013 í Flórída og ári eftir fór hann þrefaldan járnkarl í Virginíu í Bandaríkjunum.

Mjög mikið álag

Hösk­uld­ur, sem er 72 ára, kláraði maraþon­vega­lengd með 3.600 metra hækk­un í brekk­um Esj­unn­ar á 11 klukku­stund­um og 53 mín­út­um í Mt. Esju Ultra hlaupinu á laugardaginn.

„Ég hef ekki hlaupið Esjumaraþonið áður en hérna um árið voru hlaupnar ýmist tíu eða ellefu Esjur, alltaf sama ferðin upp að Steini og aftur til baka, og ég tók þátt í því þrívegis. Ég reyndi við Esjumaraþonið fyrir þremur árum en þá voru tæpari tímamörk og ég réði ekkert við það. Svo bættu þau við tveimur tímum og ákvað ég að slá til. Það gekk svo sem ágætlega, ég vissi að ég yrði nálægt tímamörkum en það slapp til,“ segir Höskuldur í samtali við mbl.is.

„Ég er búinn að vera í þessum löngu utanvegahlaupum í mörg ár og jújú, það er mjög mikið álag og maður er orðinn ansi þreyttur í lokin.“

Meiri hækkun í Esjumaraþoni en Laugavegi

„Laugavegurinn er skemmtiganga miðað við Esjumaraþonið,“ segir Höskuldur kíminn, en hann tekur þátt í Laugavegshlaupinu í 22. skipti í sumar.

„Ég hef hlaupið Laugaveginn mjög oft og hann er vissulega mjög erfiður og er farinn að reynast mér erfiðari með hverju árinu. Til samanburðar er mikið meiri heildarhækkun í Esjunni heldur en á Laugaveginum og að því leyti er Laugavegurinn auðveldari en hann er vissulega mjög krefjandi,“ segir Höskuldur.

„Ég er nú orðinn þetta gamall að ég er alltaf með síðustu mönnum og er alveg sáttur við það. Ég geri mér þetta til gamans. Laugavegurinn er einstök náttúruperla og algjör upplifun allan tímann,“ segir Höskuldur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert