Hollvinasamtök Grensásdeildar afhentu formlega nýjan og endurbættan garð við endurhæfingardeildina að Grensási á þriðjudag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var viðstaddur athöfnina.
Hollvinasamtökin stóðu að endurnýjun garðsins en um er að ræða endurgerð á lóð við sundlaugabygginguna.
„Með endurgerðinni er verið að skapa vistlegan og skjólgóðan garð með gróðri, fjölbreyttum yfirborðsefnum og æfingatækjum. Í hönnun er tryggt aðgengi fyrir alla þannig að lóðina er hægt að nota sem endurhæfingarsvæði,“ segir í tilkynningu frá Landspítala um málið.
„Á Grensási fer fram umönnun og þjálfun sjúklinga sem glíma við færniskerðingu vegna slysa eða ýmissa sjúkdóma. Í mörgum tilvikum hefur alvarlegt slys eða áfall borið brátt að og sálrænt áfall sjúklinga því oft mikið og erfitt. Því skiptir máli að aðstæður til endurhæfingar séu sem bestar og endurbæturnar sem teknar voru í notkun nú því til mikilla bóta.“