ON og Reykjavíkurborg höfðu betur gegn Ísorku

Hleðslustöð ON við Laugardalslaug.
Hleðslustöð ON við Laugardalslaug. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Landsréttur staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um ógildingu úrskurðar kærunefndar útboðsmála um lögmæti útboðs á uppsetningu og rekstri hleðslustöðva fyrir rafbíla í hverfum Reykjavíkur.

Óheimilt að taka kröfu til meðferðar

Orka náttúrunnar ohf.(ON) var hlutskörpust í útboðinu en Ísorka ehf., sem var einnig þátttakandi í útboðinu, beindi kæru um lögmæti útboðsins til kærunefndar útboðsmála. Í úrskurði nefndarinnar var meðal annars samningur Reykjavíkurborgar og ON sem gerður var á grundvelli hins kærða útboðs lýstur óvirkur og Reykjavíkurborg gert að greiða stjórnvaldssekt. ON höfðaði mál til að fá hnekkt úrskurði kærunefndar útboðsmála og gerði Reykjavíkurborg, sem var aðili að dómsmálinu, jafnframt þá kröfu.

Í niðurstöðu Landsréttar er fallist á með héraðsdómi að kærufrestur hafi verið liðinn er Ísorka ehf. hafði uppi kröfu um óvirkni samningsins. Kærunefnd útboðsmála hafi því verið óheimilt að taka þá kröfu til meðferðar. Sú niðurstaða nefndarinnar að taka kröfuna til greina var talin slíkur annmarki á málsmeðferð hennar að óhjákvæmilegt væri að mati Landsréttar að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um ógildingu úrskurðarins.

Gleðifréttir fyrir rafbílaeigendur

Tóm­as Kristjáns­son, formaður Raf­bíla­sam­bands Íslands, segir dóminn vera miklar gleðifrétti fyrir rafbílaeigendur. „Á meðan þetta mál hefur verið í gangi þá hefur Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög haldið að sér höndum við uppsetningu á hleðslustöðvum. Þannig að þetta mál hefur haft ofboðslega neikvæð áhrif á uppsetningu hleðslustöðva á vegum sveitarfélaga á Íslandi. Núna er þetta loksins komið fyrir Landsrétti og þá er von á því að hjólin fara að snúast aftur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert