„Pólitík þvælist ekki fyrir“ fleiri íbúðum

Einar Þorsteinsson.
Einar Þorsteinsson. mbl.is/Óttar

Eitt af fyrstu verk­efn­um Ein­ars Þor­steins­son­ar í starfi for­manns borg­ar­ráðs er að stofna þver­póli­tísk­an stýri­hóp sem er ætlað að „bora sig ofan í“ hús­næðismál­in og mun hóp­ur­inn heyra und­ir borg­ar­ráð.

„Við ætl­um ekki að láta stranda á borg­inni þegar kem­ur að því að gefa verk­tök­um og iðnaðinum svig­rúm til að byggja í borg­inni,“ seg­ir Ein­ar í sam­tali við mbl.is. „Við vilj­um greiða fyr­ir öll­um ákvörðunum og það er verk­efnið núna.“

Sveit­ar­fé­lög flýti fram­kvæmd­um

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri sagði á fundi þar sem ákvörðun pen­inga­stefnu­nefnd­ar bank­ans var kynnt um hækk­un stýri­vaxta um eina pró­sentu að fast­eigna­markaður­inn hafi lagt mikið til verðbólg­unn­ar. Hann talaði um að stór­ir ár­gang­ar ungs fólk streymdu inn á fast­eigna­markaðinn og að byggja verði meira af hús­næði. Ein­kenni­legt sé að horfa á ónýtt bygg­ing­ar­land víða í borg­inni.

Ein­ar seg­ir um­mæli Ásgeirs um fram­boðshliðina á hús­næðismarkaðnum ekki vera ný af nál­inni. Hann hafi lengi talað um að fleiri íbúðir vanti á markaðinn til að anna eft­ir­spurn­inni. „Hann er að beita þeim stý­ritækj­um sem hann tel­ur best að nota og það er aug­ljóst að það þarf að bregðast við verðbólg­unni,“ seg­ir Ein­ar.

Hann kveðst sam­mála seðlabanka­stjóra um að besta leiðin til að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði er að öll sveit­ar­fé­lög, sér­stak­lega á höfuðborg­ar­svæðinu, geri sitt allra besta til að flýta fram­kvæmd­um, auka lóðafram­boð og liðka fyr­ir öll­um skipu­lags­mál­um. Þessi vegna verði stýri­hóp­ur­inn stofnaður.

Ein­ar bend­ir á áherslu­atriði meiri­hlut­ans í borg­inni um að út­hluta lóðum aust­ar, bæði í Úlfarsár­dal og á Kjal­ar­nesi. Hefja þurfi strax vinnu við Keldna­land og Keldna­holt. „Þetta eru verk­efn­in sem eru kom­in strax í vinnslu en ég legg áherslu á að meiri- og minni­hluti vinni vel sam­an vegna þess að það þurfa all­ir að leggj­ast á eitt til þess að ná ár­angri í þessu.“

„Það þarf bara fleiri íbúðir“

Ein­ar nefn­ir að borg­in vill hefja sam­tal við ríkið um það hvernig það og sveit­ar­fé­lög geta staðið sam­an í að tryggja lóðafram­boð og flýta fyr­ir upp­bygg­ingu. Það sé dýrt fyr­ir sveit­ar­fé­lög að ryðja land, byggja skóla­hverfi og aðra innviði. „Við sjá­um að upp­söfnuð þörf er gríðarlega mik­il og það er ekk­ert í kort­un­um sem gef­ur til kynna að það fari að hægj­ast eitt­hvað á eft­ir­spurn­ar­hliðinni. Það þarf bara fleiri íbúðir,“ grein­ir hann frá og bend­ir á nýja skýrslu hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar um stöðu hús­næðis á höfuðborg­ar­svæðinu í þessu sam­hengi.

Spurður hvort bygg­ing­ar séu vænt­an­leg­ar fljót­lega til að tak­ast á við vand­ann sem nú er uppi svar­ar Ein­ar að mik­il upp­bygg­ing sé í gangi í Reykja­vík. „Það er verið að byggja. Við sjá­um þegar við keyr­um um allt höfuðborg­ar­svæðið að það er verið að byggja eitt­hvað í hverju sveit­ar­fé­lagi. Það kem­ur inn á markaðinn eft­ir því sem verk­un­um vind­ur fram,“ seg­ir hann.

Ein­ar tal­ar um að með starfi hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar, sveit­ar­fé­laga og fleiri aðila sé betri yf­ir­sýn að nást yfir hús­næðismarkaðinn. Hana hafi skort þegar kem­ur að því að vita hvar ákveðin bygg­ing­ar­verk­efni séu stödd í ferl­inu. Upp­færð mann­fjölda­spá frá því í vor hafi jafn­famt vakið fólk til um­hugs­un­ar um tals­vert meiri þörf fyr­ir hús­næði en áður var talið.

Einar, lengst til vinstri, á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur …
Ein­ar, lengst til vinstri, á fyrsta fundi nýrr­ar borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur fyrr í mánuðinum. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Vanda­mál af ýms­um toga

Aðspurður seg­ir hann að sam­starf borg­ar­inn­ar við ríki og önn­ur sveit­ar­fé­lög hefði átt að hefjast fyrr. Hann tek­ur þó fram að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafi leitt vinnu við að tryggja stofn­fram­lög til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis. 30 millj­örðum króna hafi verið veitt til þess frá ár­inu 2016, sem hafi skipt miklu máli til að mæta þörf­um efnam­inna fólks. Borg­in hafi tekið þátt í því að fjár­magna hluta þess­ara stofn­fram­laga.

Í kosn­inga­bar­áttu Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar var kveðið á um bygg­ingu 3.000 íbúða á ári á kjör­tíma­bil­inu. Ein­ar seg­ir verk­efnið framund­an snú­ast um þetta. „Hækk­un hús­næðis­verðs er að auka verðbólgu í land­inu. Þetta set­ur þrýst­ing á kjaraviðræður því þar er hús­næðisliður­inn gríðarlega mik­il­væg­ur. Þetta skipt­ir heim­il­in í land­inu gríðarlega miklu máli og aðal­atriðið er að það standi ekki á sveit­ar­fé­lög­un­um. Þau geri allt sem þau geta til að auka fram­boð,“ seg­ir hann en tek­ur fram að iðnaðar­menn skorti í þenn­an geira. „Það þarf að finna lausn á ýms­um vanda­mál­um sem þessu tengj­ast en það er bara verk­efnið.“

Hann kveðst finna póli­tíska sam­stöðu um þetta bæði hjá meiri- og minni­hlut­an­um í borg­inni. Hvet­ur hann önn­ur sveit­ar­fé­lög til að vinna einnig að mál­un­um „þannig að póli­tík þvæl­ist ekki fyr­ir“.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert