Knattspyrnufélag Reykjavíkur og Knattspyrnufélagið Valur hafa fengið styrk frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) upp á 30.000 evrur eða sem nemur 4,3 milljónum króna til þess að hjálpa flóttafólki að aðlagast íþróttasamfélaginu í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ. Þessir fornu erkifjendur vinna saman að verkefninu þar sem Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða nær yfir svæði beggja.
Pálmi Rafn Pálmason, íþróttastjóri KR, segir aðspurður að rígur milli félaganna sé settur til hliðar í málum sem þessum: „Rígur er algjörlega settur til hliðar þegar svona á við. Við vinnum þetta í sameiningu og gerum þetta fyrir þennan hóp, sem er mikilvægt að aðstoða eins vel og við getum,“ segir hann.
Þjónustumiðstöðin eigi þá einnig stóran þátt í verkefninu og sé stór ástæða fyrir því að félögin hafi fengið styrk fyrir verkefnið, sem ber yfirskriftina Velkomin í hverfið.
Lengri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag, föstudag.