Ríkið viðurkennir brot gegn dæmdu fólki

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu.

Íslenska ríkið viðurkenndi brot gegn kærendum í fjórtán málum sem Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur haft til meðferðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir að málin sem um ræði séu af sama meiði og svokallað Landsréttarmál. 

Í málunum fjórtán dæmdi einhver hinna fjögurra Landsréttardómara sem dómur MDE í Landsréttarmálinu snertir. 

Dæmdir fyrir nauðganir, spillingu og smygl

Ákvörðun MDE var birt í gær. Með henni lýkur málunum með vísan til yfirlýsingar ríkisins um brot og greiðslu 4.000 evra, eða því sem nemur rúmri hálfri milljón íslenskra króna, til hvers kæranda vegna málskostnaðar.

Fréttablaðið segir að á meðal kærenda séu Jens Guðmundsson, sem dæmdur var í fimmtán mánaða fangelsi fyrir spillingu og brot í starfi sem rannsóknarlögreglumaður, Eldin Skoko og Fjölnir Guðsteinsson, sem báðir voru dæmdir fyrir nauðgun og Otto Örn Þórðarson, sem dæmdur var fyrir amfetamínsmygl.

Kærendurnir eiga kost á að krefjast endurupptöku mála sinna.

Þá gerði tíkið einnig fómssátt við tvo kærendur til viðbótar við áðurnefnda fjórtán. Sáttin var gerð við Atla Helgason, sem höfðaði mál í viðleitni til að fá lögmannsréttindi á ný eftir að hann hafði misst þau í kjölfar manndráps sem hann framdi, og Gunnlaug Helgason sem kærði til MDE vegna endurtekinnar refsimeðferðar vegna skattalagabrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka