Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann til sviptingar ökuréttinda ævilangt vegna fjölda umferðarlagabrota árið 2018.
Árið 2021 var hann sakfelldur á Spáni fyrir manndráp af ásetningi eftir að hafa orðið unnusta móður sinnar að bana og dæmdur í 17 ára fangelsi. Var því ákveðið að honum yrði ekki gerð sérstök refsing fyrir umferðarlagabrotin, fyrir utan sviptingu ökuréttinda.
Maðurinn var ákærður fyrir umferðarlagabrot í fimm mismunandi liðum fyrir að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja frá júlí til október árið 2018. Maðurinn játaði sök fyrir dómi.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að hann eigi langan sakaferil sem nái aftur til ársins 1996. Frá þeim tíma til og með 2014 hlaut hann þrettán fangelsisdóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og fleiri lögum. Árið 2014 hlaut hann tvo dóma. Annars vegar dæmdi Héraðsdómur Reykjaness hann í þriggja ára fangelsi og hins vegar dæmdi Héraðsdómur Suðurlands hann í sex mánaða fangelsi. Árið 2016 hlaut hann tveggja ára skilorðsbundna reynslulausn.
„Þegar það er hins vegar virt að með spænskum dómi 29. nóvember 2021 var ákærði sakfelldur fyrir manndráp af ásetningi, húsbrot og hótanir og dæmdur í 17 ára fangelsi þykir í ljósi 60. gr. og ákvæða 78. gr. almennra hegningarlaga um hegningarauka ekki ástæða til að taka upp reynslulausn ákærða. Að því gættu þykir ekki rétt að gera honum frekari refsingu,“ segir í dómi héraðsdóms.