Hugtökin matvælaöryggi og fæðuöryggi hafa sitthvora þýðinguna, eins og athygli er vakin á í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu. Segir þar að hugtökin hafi mikið verið notuð að undanförnu en þeim sé stundum ruglað saman.
Vegna innrásar rússneskra hersveita í Úkraínu og þeirrar hættu sem stríðið setur fæðuöryggi í víða um heim hefur hugtakið verið notað, m.a. í fréttaflutningi af ástandinu sem hefur skapast.
Í tilkynningunni eru hugtökin skilgreind með eftirfarandi hætti:
Fæðuöryggi: Þegar allt fólk, á öllum tímum, hefur raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þess til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.
Matvælaöryggi: Þegar matvæli eru örugg til neyslu. Matur er meðhöndlaður, matreiddur og geymdur þannig að hætta á matarsjúkdómum er í lágmarki. Matvæli eru varin fyrir sýkingarvöldum og efnasamböndum sem valdið geta neytendum heilsutjóni.