Skjálfti af stærð 2,9 á meðal eftirskjálfta

Skjálfti af stærð 2,9 mældist undir Langjökli í nótt.
Skjálfti af stærð 2,9 mældist undir Langjökli í nótt. mbl.is/Sigurður Bogi

Nokkuð hefur verið um eftirskjálfta í kjölfar skjálfta af stærð 4,6 sem varð undir Langjökli klukkan tólf mínútur yfir tíu í gærkvöldi. Stærsti eftirskjálftinn varð um klukkan hálf þrjú í nótt og mældist hann 2,9 að stærð. 

„Það er búin að vera smá eftirvirkni en ekkert óeðlilegt og er aðeins að róast núna, svo sjáum við til hvernig framvindan verður,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Leita þarf nokkur ár aftur í tímann til þess að finna viðlíka skjálfta á svæðinu og þann sem mældist 4,6 að stærð í gær en síðast varð skjálfti yfir fjórum að stærð í vestanverðum Langjökli þann 10. desember árið 2015.

Spurð hvort það sé merki um eitthvað sérstakt að svo stór skjálfti mælist á svæðinu nú segist Sigríður telja að um eðlilega virkni sé að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert