Uppgreiðslugjald á lánum allt að 10%

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það ekki vera góða viðskiptahætti …
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það ekki vera góða viðskiptahætti að tilgreina ekki á lánaskjölum með hvaða hætti uppgreiðslugjald lána sé. Ljósmynd/Neytendasamtökin

„Þetta gjald hefur verið alveg út úr kortinu. Við höfum séð fleiri prósentustig, allt að tíu prósenta uppgreiðslugjalds,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Hæstirétt­ur hef­ur samþykkt að taka til meðferðar mál er varðar upp­greiðslu­gjald Íbúðalána­sjóðs, þar sem málið er talið hafa for­dæm­is­gildi fyr­ir fjölda neyt­enda sem tók lán með sam­bæri­leg­um skil­mál­um.

Málið snýst um heim­ild sjóðsins til að krefja Maríu og Ólaf, í nóv­em­ber 2019, um þókn­un vegna upp­greiðslu á hús­næðisláni. Lánið tóku þau í júlí 2008 til 40 ára með út­gáfu svo­kallaðs ÍLS-veðbréfs. María og Ólaf­ur höfðuðu svo mál á hend­ur gagnaðila til end­ur­greiðslu upp­greiðslu­gjalds­ins.

Þó nokkur sambærileg mál

„Við höfum lengi haft horn í síðu þessa uppgreiðslugjalds. Við teljum verulegan vafa leika á um það hvort gjaldið sé lögmætt eða hvernig það er reiknað því það kemur hvergi fram í neinum skjölum,“ segir Breki.

Hann fagnar því að Hæstiréttur fái fái tækifæri til að fjalla um málið og vonar að málið falli neytendum í vil í þetta sinni, en málið sé fordæmisgefandi.

„Við höfum í gegnum tíðina fengið fyrirspurnir um þetta gjald frá þó nokkrum aðilum og ég veit að það eru margir að bíða niðurstöðu þessa máls, hvernig verði tekið á þeirra eigin kröfum,“ segir Breki.

„Absúrd“ að mati Neytendasamtakana

„Það eru sjálfsagðir viðskiptahættir að í skilmálum séu öll skjöl tilgreind, meðal annars hvert uppgreiðslugjald sé. Það er alveg fáránlegt að annað hvort sé einhver óskiljanleg reikniregla sem enginn getur áttað sig á sem ræður gjaldinu eða það sé ekki tilgreint hvernig kjörin eru ef fólki hugnast að greiða upp lánin,“ segir Breki.

„Neytendasamtökin telja það „absúrd“ að það sé ekki tilgreint með greinilegum hætti í skilmálum og lánaskjölum hvernig uppgreiðslugjald skuli reiknað. Að okkar mati eru þetta ósanngjarnir skilmálar að það séu í þeirra eigin valdi hvernig þetta gjald sé reiknað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka