„Búum náttúrulega á Íslandi“

Birgitta Björg Jónsdóttir.
Birgitta Björg Jónsdóttir. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Birgitta Björg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Into the Glacier, sem stendur að baki ísgöngunum í Langjökli, segir að jarðskjálftinn sl. fimmtudag hafi ekki haft nein áhrif á starfsemi fyrirtækisins.

Jarðskjálfti undir Langjökli 4,6 að stærð

Jarðskjálfti, 4,6 að stærð, varð 13,8 kíló­metra suður af Ei­ríks­jökli, það er und­ir Lang­jökli, að kvöldi sl. fimmtudag. 

Skjálft­inn fannst vel á öllu Vest­ur­landi, norður í Húna­vatns­hrepp, á höfuðborg­ar­svæðinu og allt suður í Rangárþing eystra. Fjöldi eft­ir­skjálfta hafa fylgt í kjöl­farið og eru þeir þegar orðnir nokkr­ir tug­ir að sögn Bryn­dís­ar Ýrar Gísla­dótt­ur, nátt­úru­vár­sér­fræðings hjá Veður­stof­unni.

Óttast ekki áframhaldandi skjálfta

„Þetta hafði engin áhrif, það eru engin ummerki að hér hafi verið jarðskjálfti. Við fundum vel fyrir jarðskjálftanum í Húsafelli og vel fyrir eftirskjálftum, en þetta hafði engin áhrif. Eftir samtal við lögregluna á vesturlandi og almannavarnir og veðurstofuna ákváðum við að starfrækja göngin líkt og um venjulegan dag væri að ræða. Það er allt í fullu fjöri hjá okkur og þetta hefur ekki haft nein áhrif“.

Spurð hvort þau hafa áður orðið vör við jarðskjálfta á svæðinu segir hún að þau hafa orðið vör við þá í í nágrenni við jökulinn en aldrei inn í göngunum. „„Það var einn jarðskjálfti í apríl, en við höfum aldrei verið með starfsmann í göngunum þegar það hafa verið jarðskjálftar nálægt þannig að við höfum ekkert orðið vör við þá,“ segir hún.

Hún segist ekki óttast áframhaldandi skjálfta á svæðinu. „Nei er ekki orðinn stressuð fyrir því. Við tökum einn dag í einu, við búum náttúrulega á Íslandi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert