Birgitta Björg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Into the Glacier, sem stendur að baki ísgöngunum í Langjökli, segir að jarðskjálftinn sl. fimmtudag hafi ekki haft nein áhrif á starfsemi fyrirtækisins.
Jarðskjálfti, 4,6 að stærð, varð 13,8 kílómetra suður af Eiríksjökli, það er undir Langjökli, að kvöldi sl. fimmtudag.
Skjálftinn fannst vel á öllu Vesturlandi, norður í Húnavatnshrepp, á höfuðborgarsvæðinu og allt suður í Rangárþing eystra. Fjöldi eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið og eru þeir þegar orðnir nokkrir tugir að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.
„Þetta hafði engin áhrif, það eru engin ummerki að hér hafi verið jarðskjálfti. Við fundum vel fyrir jarðskjálftanum í Húsafelli og vel fyrir eftirskjálftum, en þetta hafði engin áhrif. Eftir samtal við lögregluna á vesturlandi og almannavarnir og veðurstofuna ákváðum við að starfrækja göngin líkt og um venjulegan dag væri að ræða. Það er allt í fullu fjöri hjá okkur og þetta hefur ekki haft nein áhrif“.
Spurð hvort þau hafa áður orðið vör við jarðskjálfta á svæðinu segir hún að þau hafa orðið vör við þá í í nágrenni við jökulinn en aldrei inn í göngunum. „„Það var einn jarðskjálfti í apríl, en við höfum aldrei verið með starfsmann í göngunum þegar það hafa verið jarðskjálftar nálægt þannig að við höfum ekkert orðið vör við þá,“ segir hún.
Hún segist ekki óttast áframhaldandi skjálfta á svæðinu. „Nei er ekki orðinn stressuð fyrir því. Við tökum einn dag í einu, við búum náttúrulega á Íslandi“.