Háskóli Íslands brautskráir 2.594 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi í dag og hefur aldrei áður brautskráð jafnmarga í einu. Til samanburðar voru 2.548 kandídatar brautskráðir í fyrra og höfðu þeir þá aldrei verið fleiri.
Þá brautskráði Háskóli Íslands 455 kandídata í febrúar síðastliðnum og því hafa alls 3.049 útskrifast frá skólanum það sem af er ári.
Í hópi brautskráningarkandídata nú eru fyrstu nemendurnir sem ljúka meistaranámi í hagnýtri atferlisgreiningu og þroskaþjálfafræði til starfsréttinda.
Brautskráningarathafnir verða tvær og fara fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Eftir tveggja ára hlé geta gestir nú verið viðstaddir athafnirnar og samfagnað með brautskráningarkandídötunum. Bein útsending verður jafnframt frá báðum athöfnum fyrir áhugasöm og fylgjast má með útsendingunni hér á mbl.is.
Líkt og áður mun Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytja ávarp við athafnirnar og þá munu Sara Þöll Finnbogadóttir, sem útskrifast með BA-gráðu í stjórnmálafræði, og Ingunn Rós Kristjánsdóttir, sem brautskráist með BA-próf í sálfræði, ávarpa gesti fyrir hönd brautskráningarkandídata á athöfnunum tveimur. Þá skemmtir hljómsveitin Systur, sem skipuð er þeim Sigríði, Elísabetu og Elínu Eyþórsdætrum, gestum athafnanna.
Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskrást 653 frá Félagsvísindasviði og 311 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði. Þar brautskrást 578 frá Heilbrigðisvísindasviði, 279 frá Hugvísindasviði og 773 frá Menntavísindasviði.