Ísland er líklegur gestgjafi þegar sögulegur leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram á næsta ári í fjórða skipti frá upphafi. Slíkur fundur hefur ekki farið fram í 25 ár og er því um stórviðburð að ræða, mögulega einn þann stærsta sem haldinn hefur verið á Íslandi ef af því verður, segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Hann er staddur í Strassborg þar sem sumarþingi Evrópuráðsþingsins lauk í gær.
Alls eiga 46 ríki aðild að Evrópuráðinu og fer hvert þeirra með formennsku í ráðinu sex mánuði í senn. Munu Íslendingar taka við því embætti af Írum í nóvember á þessu ári.
Á fundinum verður framtíð Evrópuráðsins til umræðu í ljósi breyttrar stöðu alþjóðamála, auk þess sem farið verður yfir hvert framtíð Evrópu stefnir og hvernig hægt sé að þétta raðirnar um sameiginleg gildi Evrópuríkjanna.
Undirbúningur leiðtogafundarins er nú kominn á fullt skrið og mun fundurinn að öllum líkindum fara fram í maí á næsta ári. Ísland hefur boðist til að vera gestgjafi og er mikill áhugi á því innan Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins, að sögn Bjarna.
„Þá ekki síst í sögulegu ljósi. Ísland hefur góða ímynd á alþjóðavettvangi. Stigin voru mikilvæg skref til að ljúka kalda stríðinu með leiðtogafundi á Íslandi á sínum tíma. Við höfum sterka lýðræðishefð og höfum talað fyrir friðsamlegum úrlausnum á alþjóðavettvangi og þeim grunngildum sem Evrópuráðið byggir á.“
Þá var einnig stofnuð sérnefnd á fundi framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins í gærmorgun sem á að endurskoða starfsemi Evrópuráðsins og skila tillögum um framtíð þess. Mun Bjarni skipa sæti í nefndinni.