„Mikill samhugur meðal fólks“

Óslóarbúar söfnuðust saman í dag skammt frá skemmtistaðnum þar sem …
Óslóarbúar söfnuðust saman í dag skammt frá skemmtistaðnum þar sem árásin átti sér stað. Mikill samhugur er meðal íbúa, að sögn sendiherra. AFP

„Fólk hér í Ósló er eðlilega mjög slegið en hér er líka mikill samhugur á meðal fólks. Samhugur og samstaða,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Ósló vegna skotárásar sem gerð var fyrir utan skemmtistað í gærkvöld. Staðurinn er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks.

„Þegar ægilegir atburðir eiga sér stað fer ákveðið ferli af stað,“ segir hún og var gengið strax í það ferli. Sendiráðið setti færslu á Facebook þar sem Íslendingar í Ósló voru hvattir til að láta aðstandendur vita af sér. 

Tveir létust og tuttugu særðust, þar af tíu alvarlega og hefur árásarmaðurinn þegar verið handtekinn. Óslóarbúar áttu samverustund skammt frá árásarstaðnum í dag.

Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Ósló.
Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Ósló. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ekki verið óskað eftir aðstoð

„Eins og staðan er núna höfum við ekki upplýsingar um að Íslendingar eða íslenskir ríkisborgarar hafi óskað eftir aðstoð. Við vonum að sú staða breytist ekki, við vonum að allt okkar fólk sé óhult,“ segir hún. Hugur hennar og allra sé hjá fórnarlömbum árásarinnar og aðstandendum. 

Gleðigangan í Ósló átti að fara fram í dag en henni hefur verið aflýst, í samræmi við ströng fyrirmæli frá öryggisyfirvöldum og lögreglu í Ósló. „Það var mikil tilhlökkun í borginni að halda þessa hátíð, sem hefur ekki verið haldin síðastliðin tvö ár vegna Covid. En öryggi borgaranna er eðlilega í forgrunni,“ segir Ingibjörg. 

Fengið símtöl þar sem fólk leitar hugarróar

„Ég myndi segja að þetta sé greinilega einbeitt árás á samheldni hinsegin fólks. Sérstaklega miðað við daginn í dag,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78. „Þetta er tilraun til að vekja ótta hjá fólki og rýra samheldnina.“ Álfur telur mikilvægt að hinsegin fólk um allan heim standi áfram saman sem áður. 

„Samfélagið hér heima er mjög slegið. Ég hef fengið mörg símtöl þar sem fólk leitar einhvers konar aðstoðar og hugarróar, vegna þess að þetta er óþægilegt. Óþægilegt fyrir alla,“ segir Álfur og bætir við í lokin: „Þetta sýnir mikilvægi þess að við höldum baráttunni áfram og látum hvergi deigan síga.“ 

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert