50 dansstelpur strandaglópar og óvíst með keppnina

20 stelpur eru nú komnar með flug en 30 eru …
20 stelpur eru nú komnar með flug en 30 eru enn eftir og langt kvöld framundan. Ljósmynd/Aðsend

Vægast sagt dramatískt ástand myndaðist í Leifsstöð í dag þegar flugi Play til Madrídar var aflýst en þar var mættur hópur 50 unglingsstúlkna, fæddar á árunum 2005 til 2007 í danslistarskóla JSB, á leið í langþráða danskeppni á Spáni.

„Við mætum snemma upp á flugvöll og erum komin þarna upp úr 12. Sumir eru komnir og aðrir á leiðinni þegar við fáum tölvupóst frá Play að það sé seinkun,“ segir Helga Hlín Stefánsdóttir, danskennari hjá JSB og ein skipuleggjanda ferðarinnar, í samtali við mbl.is.

Í póstinum stóð að vænta mætti frekari upplýsinga klukkan þrjú en áætlaður brottfarartími var upphaflega klukkan þrjú.

Héldu sínu striki og biðu

Ákveðið var því að allir skildu halda sínu striki og næstu þrjár klukkustundirnar var því beðið í innritunarsalnum. „Það er erfitt að snúa öllum við þegar maður veit ekki neitt.“

Klukkan þrjú kom síðan nýr tölvupóstur, um að næstu upplýsingar kæmu klukkan fjögur. Þegar klukkan sló fjögur kom upp á skjánum í Keflavík um að fluginu hefði verið aflýst.

„Í góðan tíma fáum við engan tölvupóst eða neitt. Við sjáum bara þarna uppi á skjánum að fluginu sé aflýst og við sitjum uppi með 50 stelpur sem eru búnar að æfa síðan í nóvember,“ segir Helga en skólinn eru með tólf dansatriði í keppninni, sem að hennar sögn er ein stærsta sinnar tegundar.

„Þetta eru held ég tólf dansatriði frá okkur sem að er búið að æfa síðan í nóvember og Play gerir ekki neitt,“ heldur Helga áfram og launar flugfélaginu ekki kveðjurnar og segir engan starfsmann flugfélagsins hafi verið í flugstöðinni til að veita þeim upplýsingar.

Langt kvöld framundan

Helga ásamt fleirum skipuleggjendum eru nú stödd á krísufundi og keppast við að bóka flug fyrir hópinn hjá hinum ýmsu flugfélögum, um það bil fjóra til fimm í einu.

Keppnin hefst á þriðjudag og því enn óvíst hvort allur hópurinn kemst í tæka tíð, þau hafa þó ekki gefið upp vonina.

Búið er að bóka fyrir 20 stelpur í flug á morgun, en um helmingur flýgur í gegn um Munchen og hinn í gegn um Zurich. Ljóst er þó að enn á eftir að bóka fyrir 30 stelpur.

„Þannig það er langt kvöld framundan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert