Hjónin Jón Þorsteinn Sigurðsson og Svetlana Veschagina giftu sig síðasta sumar og ætluðu að endurtaka brúðkaupsveisluna á eins árs brúðkaupsafmælinu svo fjölskylda Svetlönu gæti verið viðstödd. Stríðið í Úkraínu kom þó í veg fyrir það. Þau slógu því til garðveislu fyrir hverfið í staðinn og söfnuðu pening fyrir fötluð börn í stríði.
„Grunnurinn var náttúrulega að ég ætlaði að gifta mig á þriðjudaginn aftur. Ég ætlaði semsagt að fá fjölskyldu konunnar minnar frá Rússlandi því hún er rússnesk en vegna aðstæðna sem uppi eru í heiminum að þá var það ekki hægt því þau fengu ekki ferðaleyfi hingað til Íslands,“ segir Jón.
„Við ætluðum að endurtaka þetta allt saman aftur og halda veislu fyrir alla fjölskylduna.“
Þau dóu þó ekki ráðalaus, ákváðu að halda upp á daginn, bjóða öllum nágrönnunum til sín og búa til ákveðna hverfisstemningu.
Hjónin voru búin að bóka hljómsveitina Sérfræðinga að sunnan fyrir brúðkaupsveisluna og fengu hana því til að spila í garðveislunni. Herbert Guðmundsson mætti svo í lokin og „rokkaði upp partíið,“ að sögn Jóns. Boðið var upp á pylsur fyrir gesti og gangandi en SS gaf pylsurnar og Bernhöftsbakarí brauðin.
Jafnhliða garðveislunni ákváðu hjónin að safna fyrir fötluð börn sem búa við stríðs- og neyðarástand.
„Við vorum bara samála um það að við vildum reyna að gera eitthvað með þessu og safna fyrir þennan málstað,“ segir Jón en þau söfnuðu tæplega 50.000 kr. fyrir fötluð börn sem búa við stríðs- og neyðarástand og afhentu Þroskahjálp.
Jón segir málaflokkinn þeim nátengdan. Hann vinnur sjálfur sem yfirmaður réttindagæslu fatlaðs fólks og Svetlana þekkir til hvernig meðferð er á fötluðu fólki í Rússlandi og þá sérstaklega á stríðstímum.
„Í fyrra vorum við að berjast við Covid og hvort við fengjum að bjóða einhverjum í veisluna. Svo þetta er búið að vera svolítið erfið fæðing,“ segir Jón en þetta er annað árið í röð sem fjölskylda Svetlönu kemst ekki í brúðkaupsveisluna.
Aðspurður segir Jón að þau reyni mögulega að halda aftur brúðkaupsveislu að ári en þau muni klárlega slá til annarrar garðveislu þar sem hún tókst svo vel.
„Hún vakti upp stemningu til að gera eitthvað meira,“ segir Jón.