Mikil tækifæri fyrir konur í upplýsingatækni

Ný stjórn Vertonet hyggst beita sér fyrir því að auka …
Ný stjórn Vertonet hyggst beita sér fyrir því að auka fjölbreytileika í upplýsingatækni. Ljósmynd/Jón Snær Ragnarsson/Advania

Ný stjórn Vertonet, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni, hyggst beita sér fyrir því að auka fjölbreytileika í upplýsingatækni. Í geiranum hallar verulega á konur en ætla má að þær séu aðeins um 25 til 30 prósent mannauðs í upplýsingatæknitengdum störfum.

Guðrún Helga Steinsdóttir, nýkjörin formaður stjórnar Vertonet, segir það vissulega verðugt verkefni að ætla að fjölga konum í upplýsingatæknitengdum störfum. Hún bendir hins vegar á að vilji sé til þess hjá meirihluta fyrirtækja að jafna kynjahlutföllin, sem sé mjög jákvætt.

„Við erum með hugmyndir um samstarf fyrirtækja um að gefa konum jöfn tækifæri við ráðningu í þessi störf og við sjáum líka tækifæri í að vinna við að kynna þetta með háskólasamfélaginu. Það eru allskonar félög og hópar þar sem eru með sambærileg markmið og langar að útvíkka það,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Vilja útvíkka hópinn

Þá heldur Vertonet úti hlaðvarpi þar sem er rætt við konur í fjölbreyttum hlutverkum innan upplýsingatæknigeirans, en hlaðvarpið hefur náð miklum vinsældum, að sögn Guðrúnar sem vonast til að þeirra reynsla verði öðrum konum innblástur.

„Það eru svo margir sem halda að upplýsingatækni sé svo afmörkuð. Við erum að leggja áherslu á hin ýmsu hlutverk í upplýsingatækni. Það eru ekki bara forritarar eða þeir sem vinna beint í töluverfunum, þetta er svo miklu viðameira. Við höfum lagt áherslu á að við erum öll saman í þessum geira, sama hvaða hlutverki við gegnum í geiranum. Það eru verkefnastjórar, það eru mannauðsstjórar og vörustjórar. Það eru allskonar hlutverk sem fólk gegnir en er samt að vinna í upplýsingatæknigeiranum. Við viljum útvíkka hópinn, að konur sjái tækifæri að vinna í þessum málflokki þó þær séu ekki tæknimenntaðar,“ útskýrir Guðrún.

„Svo langar okkur líka að vinna með, eins og til dæmis Advania, sem hefur verið að leggja áherslu á að opna augu kvenna að fara læra kerfisfræði. Það eru mörg tækifæri þar. Þetta hefur verið svo karllægt hugarfarslega. Það hefur gengið vel þetta átak hjá þeim og þess vegna sjáum við fyrir okkur samvinnu með þeim og vonandi fleiri fyrirtækjum,“ segir hún jafnframt.

43 prósent telja unnið að því að bæta stöðu kvenna

Á síðasta ári var gerð könnun á stöðu kvenna í upplýsingatækni í samvinnu við Intellecta, en 43 prósent þeirra 230 kvenna sem svöruðu könnunni sögðu að fyrirtækið sem þær störfuðu hjá væri að vinna að því að bæta stöðu kvenna í upplýsingatækni innan fyrirtækisins. 80 prósent þeirra töldu að aðgerðir fyrirtækisins myndu skila árangri.

58,8 prósent þeirra 34 fyrirtækja sem svöruðu könnuninni sögðust vinna markvisst að því að bæta hlut kvenna innan upplýsingatækni hjá fyrirtækinu. Meðal annars með því auglýsa sérstaklega eftir konum í störf, fá ráðningarstofur til að finna fleiri konur í störf og breyta ráðningarferlinu þannig að hlutfallslega fleiri konur fengju viðtöl.

„Fyrirtækin vilja breyta þessu hlutfalli. Þau vilja hafa jafnari kynjahlutföll, ekki bara í þessum störfum heldur mörgum öðrum störfum. Það er svakalega mikið verðgildi í því að hafa allan fjölbreytileikann. Það er svo rosalega mikið í gangi í þessum stafræna umbreytiheimi hjá öllum fyrirtæjum núna um allan heim og það vantar fólk í allar stöður tengdar upplýsingatækni. Það er spennandi að grípa boltann og benda á að menntun þar gefur þér rosalega mikil tækifæri, ekki síst konum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert