Neytendasamtökin vör við mikla aukningu netsvindls

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það stóran vanda að með …
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það stóran vanda að með auknum netviðskiptum hafi netsvindl aukist mikið. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í faraldrinum og eftir hann höfum við orðið vör við mikla fjölgun mála sem við fáum á okkar borð og tengist netsvindli“, segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.

„Málin eru í raun ekki neytendamál, heldur fjársvikamál, og heyra undir lögregluna. Við hvetjum alla til þess að kæra slík mál til lögreglunnar,“ segir hann jafnframt.

Í árs­skýrslu sem að CERT-IS, netör­ygg­is­sveit­ Póst- og fjar­skipta­stofn­unar­, gaf út í maí, má sjá þreföld­un í netsvindli þar sem fé er svikið út úr fólki.

„Þetta er stór vandi með auknum netviðskiptum og hefur því svindl aukist mikið líka,“ segir Breki.

Hann segir það áhyggjuefni að aðferðirnar sem notaðar eru séu alltaf að verða betri og betri og að verið sé að svíkja svakalegar fjárhæðir út úr fólki.

„Við hvetjum fólk til að vera varkárt í viðskiptum á netinu og sér í lagi að reyna að fullvissa sig um að sá sem neytendur telja sig vera að eiga viðskipti við, sé raunverulega sá sem hann segist vera. Við verðum vör við það að óprúttnir aðilar nýta sér þekkt vörumerki hér á Íslandi eins og Póstinn eða DHL og eigi að greiða þeim eitthvað örlítið gjald,“ segir Breki en gjaldið geti svo reynst hátt, og það endi í vasa svindlara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert