Vélhjóli, svokölluðum krossara, var ekið á móti umferð og á bifreið um kvöldmatarleytið í Grafarholti í gær. Lögreglan var kölluð til og komst að því að ökumaðurinn væri einungis 15 ára og ekki með gild ökuréttindi.
Í kjölfar óhappsins reyndi ökumaður vélhjólsins að gangsetja hjólið. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að talið sé að hann hafi ætlað að yfirgefa vettvang. Sú áætlun gekk þó ekki upp. Drengurinn kenndi sér meins í fingri og var skrámaður á ökkla eftir áreksturinn. Forráðamanni hans var gert viðvart og verður tilkynning send til Barnaverndar.
Í dagbók lögreglu kemur jafnframt fram að tveir ungir menn hafi brotist inn í lyfjaverslun í Garðabæ laust eftir klukkan þrjú í nótt. Þeir hlupu frá vettvangi og drifu sig í burtu á bíl. Lögreglan hafði hendur í hári þeirra skömmu seinna og voru þeir vistaðir í fangageymslu.
Fleiri innbrot voru framin í gær, eitt á veitingastað í miðbænum. Þar var á ferðinni maður í annarlegu ástandi sem var handtekinn skömmu síðar. „Maðurinn var skorinn á höndum og var hann fluttur til aðhlynningar á Bráðadeild,“ segir í dagbók lögreglu.