„Það sem ég var hissa á var að fá póst sem var ekkert annað en hatursorðræða,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Hann fékk nafnlausan póst eftir að rætt var við hann í fjölmiðlum um íslensku fjallkonuna, sem flutti ávarp á þjóðhátíðardaginn.
Þar var til umræðu lítið umburðarlyndi Íslendinga gagnvart fólki sem talar íslensku með erlendum hreim.
Í póstinum var sagt að „fólk vilji ekki þennan mikla innflutning á útlendingum og þess vegna hati fólk að pólsk manneskja hafi verið valin, og svo bæti það ekki úr skák að hún kunni ekki íslensku“, eins og Eiríkur greindi frá í færslu á Facebook í gær.
Fjallkonan í Reykjavík í ár var Sylwia Zajkowska. Flutti hún ljóð eftr Brynju Hjálmsdóttur og hreyfði við mörgum. Sylwia er pólsk að uppruna en hefur verið búsett á Íslandi um langa hríð.
„Það er ekki til fyrirmyndar að senda nafnlausan póst og bendir nú ekki til þess að fólk telji sig hafa góðan málstað eiginlega, ef það þorir ekki að leggja nafn sitt við það sem það skrifar,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.
„Við erum vön því að vera eintyngd þjóð. Það er stutt síðan það var sáralítið af útlendingum hérna. Hér áður fyrr voru kaupmenn og embættismenn sem töluðu skrýtna íslensku og fólk gerði grín að því,“ segir hann.
Íslendingar séu óvanir því að fólk læri íslensku og tali hana ekki fullkomlega.
„Það sem ég var að segja er að við þurfum bara að venjast þessu, vegna þess að það er alveg ljóst að útlendingum mun halda áfram að fjölga hér. Það er ekkert sem bendir til annars. Það er búið að sýna fram á það að það þarf fólk til starfa á næstu árum.“
Þá vakni spurning um hvernig Íslendingar ætli að taka á slíku.
„Ætlum við að tala við það fólk á ensku og gera enskuna að sífellt stærri og veigameiri þætti eða ætlum við að leggja áherslu á að fólk læri íslensku? Ef við gerum það, sem mér finnst heimboðið að gera, eigum við að sætta okkur við það að fólk tali ekki fullkomna íslensku frá fyrsta degi,“ segir Eiríkur.
„Fólk hefur verið að gera athugasemdir við framburð og beygingar – þá náttúrulega leiðir það til þess að fólk gefist upp á þessu og sjái enga ástæðu til að læra íslensku. Og það er ekki það sem við viljum.“