Er allt í góðu?

Allt í góðu.
Allt í góðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einhverjir gætu velt því fyrir sér hvort starfsmönnum Héraðsdóms Reykjavíkur líði svo vel að sett hafi verið upp skilaboðin: „All is fine“ á húsið, eða hvort um listaverk sé að ræða. 

Þjónustufulltrúi dómsins segir við mbl.is að hið síðarnefnda eigi við en hér er um að ræða textaverk sænsku listakonunnar Ulriku Sparre, sem er hluti af listasýningunni Hjólið V: Allt í góðu, sem fer fram víða um borgina þessa dagana. 

Með verkinu kannar Ulrika hugmyndir um einstaklingsbundinn og sammannlegan ótta, og það hvernig fjölmiðlar, tungumál og pólitík hafa áhrif á trú og ótta almennings.

Textinn hefur vakið athygli að undanförnu.
Textinn hefur vakið athygli að undanförnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugmyndin um vaktmanninn

„Þetta kemur úr fornri hugmynd um vaktmann (e. town crier) sem gekk um borgir á miðöldum og kallaði upp hvernig tímanum leið á klukkustundarfresti. Og kallaði síðan upp „all is well“, til þess að fólkið geti sofið rótt,“ segir Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, sýningarstjóri Hjólsins. 

Neyslusamfélag nútímans boði gjarnan falskar lausnir til að róa mannsheilann og bæla ótta okkar en á tímum óvissu tekur Ulrika Sparre upp hlutverk kallarans sem telur okkur trú um skilyrðislaust öryggi og ró.

Spurð hvers vegna Héraðsdómur Reykjavíkur hafi orðið fyrir valinu segir Kristín: 

„Kannski vegna þess að þar fara fram dómar og þar er farið eftir lögum í landinu. Ákveðnar hugmyndir um að vernda okkur sem borgara í landinu. En það er líka ákveðin tvíræðni í þessu, fólk getur líka spurt: „Er allt í lagi?“

Sparre unnið mörg verk í almenningsrými

Hjólið V: Allt í góðu er fimmta og lokaútgáfa Hjólsins, sem hélt af stað 9. júní síðastliðinn en Hjólið I-V er röð fimm útisýninga á vegum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík sem hafa verið haldnar víðsvegar um borgina frá sumrinu 2019, í aðdraganda hálfrar aldar afmæli félagsins, þann 17. ágúst 2022.

Þar þræða listaverk átta listamanna sig eftir hjóla- og göngustígum í hverfum borgarinnar og er hægt er að nálgast staðsetningar verkanna, og kynna sér þau betur, á hjólið.is.

Ulrika Sparre (f. 1974) býr og starfar í Stokkhólmi, Svíþjóð. Hún notast við fjölbreytta miðla í listsköpun sinni, m.a. texta, skúlptúr, innsetningar og margt fleira en auk þess hefur hún unnið fjölda verkefna í almenningsrými víðsvegar um Evrópu og Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert