Paxlovid-töflur gegn Covid væntanlegar

Magnús Gottfreðsson.
Magnús Gottfreðsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Paxlovid, nýtt lyf sem gæti fækkað innlögnum og dauðsföllum af völdum Covid-sýkingar um 85-90%, er væntanlegt hingað til lands í haust eða síðsumars. Lyfið var nýverið samþykkt af Evrópsku lyfjastofnuninni. Heilbrigðisráðuneytið mun kaupa lyfið fyrir á annað hundrað milljónir króna.

Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum, segir það mikinn kost að lyfið sé tekið um munn. „Það þýðir að við þurfum ekki að fá fólk inn á spítala eða setja upp æðalegg, láta blanda lyfið og láta það renna inn, sem er mjög takmarkandi,“ segir hann. Lyfið er gefið tvisvar á dag. „Og það hefur sýnt sig í rannsóknum sem hafa verið birtar að það getur dregið úr innlögnum og dauðsföllum um 85 til 90%,“ segir hann.

Ávinningur sést hjá þeim sem eru settir á meðferð innan fimm daga frá upphafi einkenna. „Ávinningurinn virðist vera mestur ef sýkingin er greind snemma og meðferð hafin án mikillar tafar.“ Lyfið verður helst gefið þeim sem eru í aukinni hættu á að fá slæma sýkingu, til dæmis eldra fólki og fólki með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. „En þá er forsendan sú að okkur takist að greina það í tæka tíð,“ segir hann. Milliverkanir við önnur lyf eru helst annmarki lyfsins og verður að skoða slíkt í hverju tilviki fyrir sig að sögn Magnúsar.

Ekki er ljóst hvort sjúklingar muni geta sótt sér lyfið sjálfir eða þurfi að neyta þess á spítala. „Það er nú kannski ekki alveg búið að ákveða hvernig verður staðið að því. Ég reikna með því að við verðum með sambærilegar leiðbeiningar og þær sem verið er að skrifa á Norðurlöndunum um hvernig við nýtum þessi lyf best. Þetta er augljóslega sjúkdómslyf því það er gefið í töfluformi og tilgangurinn er að afstýra alvarlegum veikindum. Við reynum að búa þannig um hnútana að fólk geti fengið þessa meðferð ef við teljum að hún eigi við, án mikilla tafa,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert