Landsréttur hefur staðfest hálfs árs skilorðsbundið fangelsisdóm yfir manni fyrir að hafa í sjö skipti árið 2019 svikið út vörur úr byggingarvöruverslun fyrir samtals 2.3 milljónir. Tók maðurinn við tilhæfulausum tilboðum frá starfsmanni verslunarinnar og framvísað þeim í því skyni að fá vörurnar afhentar. Landsréttur felldi hins vegar niður ákvörðun héraðsdóms um að maðurinn ætti að greiða versluninni 2,3 milljónir í bætur vegna málsins.
Áður hafði héraðsdómur dæmt manninn og starfsmann verslunarinnar fyrir athæfið, en starfsmaðurinn fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Höfðu þeir verið ákærðir fyrir að hafa svikið samtals yfir 10 milljónir í vörum frá versluninni, en héraðsdómur taldi ekki sannað að þeir hefðu svikið út vörur fyrir meira en 2,3 milljónir. Starfsmaðurinn áfrýjaði ekki sínum hluta málsins, en maðurinn fór fram á að vera sýknaður.
Landsréttur taldi hins vegar sýnt fram á að maðurinn hefði viljandi tekið við tilhæfulausu tilboði sem starfsmaðurinn hafði útbúið og villt um fyrir öðrum starfsmönnum með því að hafa sýnt þeim tilboðið og þannig fengið afgreiddar vörur án þess að greitt hafi verið fyrir þær.
Dómurinn féllst ekki á einkaréttarkröfu verslunarinnar og sagði hana það vanreifaða að ekki væri hægt að leggja mat á kröfuna. Var þar vísað til yfirlits yfir þær vörur sem maðurinn afhenti eftir húsleit lögreglu. Voru þær metnar á fjórar milljónir í yfirlitinu og sagði maðurinn að verslunin hefði átt að lágmarka tjón sitt með því að selja vörurnar. Ekki lægju fyrir upplýsingar um hvað gæti fengist upp í kröfu verslunarinnar, en dómurinn taldi ljóst að krafan væri lægri en útlistað væri í málatilbúningi verslunarinnar.