Tvö útköll vegna vélarvana báta

Báturinn sem varð vélarvana við Viðey dreginn í land.
Báturinn sem varð vélarvana við Viðey dreginn í land. Ljósmynd/Landsbjörg

Nokkur erill hefur verið hjá björgunarsveitum Landsbjargar í dag. Tvö björgunarskip voru meðal annars kölluð út í dag og drógu þau vélarvana báta til lands.

Fyrst í morgun var björgunarskipið Gísli Jóns kallaður út frá Ísafirði vegna vélarvana strandveiðibáts, sem staddur var 10 sjómílur vestur af Barða milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar, að því er kemur fram í tilkynningu. 

Klukkan hálf tvö var björgunarbáturinn Sjöfn í Reykjavík einnig kallaður út vegna skemmtibáts sem varð vélarvana suður af Viðey. Engan sakaði.

Örmagna göngumenn

Þá barst Neyðarlínu tilkynning frá örmagna göngumönnum sem staddir voru á Sprengisandsleið. Fram kom að þeir hefðu verið á göngu í um viku og hefðu verið orðnir kaldir og hraktir eftir íslenska suddann. Rignt hefur undanfarna daga á hálendinu og rignir enn.

„Hópur björgunarsveitarfólks á hálendisvakt í Landmannalaugum var kallaður út og fór til mannanna, sem voru staddir í grennd við skálann í Versölum. Þeir eru komnir að mönnunum og eru nú hálfnaðir með þá til Landmannalauga þar sem hlúð verður að þeim,“ segir í tilkynningunni sem barst nú á fimmta tímanum.

Björgunarsveit frá Héraði var einnig kölluð út eftir hádegi til aðstoðar eftir að maður hrasaði við Hengifoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert