Nokkuð bjart gæti orðið á Suðurlandi í dag og enn bjartara á morgun, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Þar segir að norðlæg eða breytileg átt verði í dag og á morgun. Víða verður skýjað og sums staðar væta en þurrt lengst af á vestanverðu landinu.
„Einhverjar sólar glennur verða þó og jafnvel nokkuð bjart á Suðurlandi, sérstaklega á morgun,“ segir í hugleiðingunum.
Þar kemur fram að Vesturlandið beri sigur úr býtum hvað hitastig varðar og verður það allt að 17 gráður. Sunnanlands má reikna með allt að 20 stiga hita á morgun.
„Eins hlýnar fyrir norðan og austan, en þó ekki eins mikið og verða menn að gera sér að góðu 8 til 15 stiga hita,“ segir í hugleiðingunum sem veðurfræðingurinn lýkur með gleðitíðindum:
„Ekki er að sjá viðlíka kulda í spánum og var um nýliðna helgi.“