Þekkingarfyrirtækið Efla hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2022. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Við sama tilefni var Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari heiðraður fyrir störf sín á erlendri grund.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu.
Þar segir að Efla hafi á undanförnum árum skapað sér sess sem alhliða þekkingarfyrirtæki og unnið markvert starf við að koma hugviti sínu og vörum á framfæri erlendis. Stofan er jafnframt stærsta verkfræðistofa Íslands en hún var stofnuð fyrir 50 árum síðan.
Í tilkynningunni segir að Efla starfræki öfluga viðskiptaþróun, þar sem meðal annars sé unnið með erlendum aðilum að þróun atvinnutækifæra í útflutningi frá Íslandi.
„Fyrirtækið hefur unnið að veigamiklum verkefnum á sviði orkuflutningsmannvirkja víða um heim og er nú í fremstu röð á því sviði. Sem dæmi hefur Efla samtímis verið með rammasamninga við landsnet allra Norðurlandanna um orkuflutning. Fyrirtækið er einnig með sterka sérhæfingu í stýringum og sjálfvirkni í iðnaði, og vinnur að staðaldri að verkefnum fyrir alþjóðleg iðnaðar- og orkufyrirtæki á því sviði. Þá hefur Efla á síðasta áratug tekið þátt í verkefnum sem lúta að undirbúningi og þróun jarðvarmavirkjana og veitna víða um heim,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu.
Þar kemur fram að Eflu hafi tekist að marka sér spor sem þekkingarfyrirtæki á heimsvísu. Er þar vísað til þess að fyrirtækið er með starfsemi í dóttur- og hlutdeildarfélögum í sjö löndum: Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Frakklandi, Þýskalandi, Skotlandi og Tyrklandi. Einnig hafa starfsmenn Eflu unnið verkefni „á fjölmörgum sviðum“ í yfir 40 löndum á undanförnum áratug.
Yfir 400 manns starfa hjá Eflu en velta fyrirtækisins var í gær um 7,2 milljarðar króna. „Yfir tímabilið 2009-2021 er núvirt heildarvelta í erlendri starfsemi og verkefnum Eflu um 20 milljarðar króna.“
Eins og áður segir þá fékk Víkingur Heiðar píanóleikari heiðursviðurkenningu fyrir „eftirtektarverð störf á erlendri grundu“ við sama tilefni. Meðal fyrri verðlaunahafa eru m.a. Baltasar Kormákur, frú Vigdís Finnbogadóttir, Arnaldur Indriðason og Björk.
„Víkingur Heiðar er einn fremsti einleikari sem Ísland getur státað sig af. Hann byrjaði fimm ára gamall að spila á píanó og lauk einleikaraprófi við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 2001. Sama ár þreytti hann frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þaðan lá leiðin utan í Juilliard skólann í New York þar sem hann stundaði nám og lauk BM-prófi árið 2006 og MM-prófi árið 2008,“ segir í tilkynningunni og jafnframt:
„Að loknu námi byggði Víkingur markvisst upp feril sinn, í fyrstu mest megnis innanlands með stofnun útgáfufyrirtækisins Dirrindí árið 2009, tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Midsummer Music árið 2012 og sjónvarpsþáttanna Útúrdúrs sem hann stýrði ásamt konu sinni Höllu Oddnýju Magnúsdóttur árin 2013-2014.
Undanfarin 10 ár hefur stjarna hans risið hratt á erlendri grundu en í dag telst hann til eftirsóttustu einleikara heims og mun næsta vetur m.a. vera staðarlistamaður við Southbank Centre í London og koma fram með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitirnar í Berlín, London og New York. Víkingur vinnur auk þess náið með nokkrum helstu tónskáldum samtímans, þeirra á meðal John Adams og Thomas Adès.“