Eldurinn sem kviknaði í Dalshrauni í dag kom upp í lagerhúsnæði lyfjafyrirtækisins Coripharma. Þetta staðfestir Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri fyrirtækisins.
Að sögn Jónínu fór allt saman miklu betur en á horfðist og varð í rauninni engin stórskaði af en það kviknaði í klæðningu á vestasta horni hússins, sem er gríðarlega stórt eða 17.500 fermetrar.
Jónína bendir á að enginn eldur hafi verið innanhúss en geymslur voru á bakvið klæðninguna þar sem eldurinn kom upp. Þá segist hún ekki eiga von á því að farga þurfi lyfjum.
„Við verðum komin „back in action“ fyrir vikulok,“ segir Jónína og bætir við að reykræst hafi verið í dag og nú sé unnið að því að rífa það sem þarf og loka fyrir kvöldið. Síðan þurfi að þrífa loftræstikerfið.
Jónína segir eldinn hafi komið upp út frá gasbrennara en verktakar voru að vinna við að snyrta lóðina í kring og notuðu gasbrennara til að brenna illgresi, með þeim afleiðingum að það kviknaði í klæðningunni.
Jónína bætir þá við að vara megi við gasbrennurum og sérstaklega meðfram húsum.