Setning heildarlaga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum, sem forsætisráðherra boðar, nær þegar grannt er skoðað til fjölda fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum. Yfirlýst markmið er að setja reglur um ítarlega og faglega greiningu stjórnvalda á því hvort af tiltekinni erlendri fjárfestingu stafi hætta fyrir þjóðaröryggi eða allsherjarreglu en þeim sé ekki ætlað að vera takmörkun á erlendri fjárfestingu almennt.
Um nauðsyn heildarlaga í þessu efni er aðeins sagt í kynningu í samráðsgátt stjórnvalda að bæta þurfi úr skorti á heildstæðri og gagnsærri löggjöf um rýni á beinum erlendum fjárfestingum, einkum á sérlega viðkvæmum sviðum, með tilliti til þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Svokallað öryggisákvæði í gildandi lögum um erlenda fjárfestingu er ekki talið nógu gott. Ekki eru nefnd dæmi sem hafa verið í umræðunni, svo sem sala Símans á Mílu eða ógn sem Vesturlöndum kann að stafa af útþenslu kínverska tæknirisans Huawei. Hins vegar er vísað til sambærilegra reglna í 18 ríkjum Evrópusambandsins.
Viðurkennt er að erlend fjárfesting er almennt góð fyrir efnahagslífið. Í kynningu stjórnvalda kemur fram það álit að færa megi sannfærandi rök fyrir því að fyrirkomulagið sem eigi að innleiða sé almennt fallið til að auka traust til erlendra fjárfestinga. Þegar skoðað er hversu víða er borið niður, þótt pakkað sé inn í umbúðir almenns orðalags, má hafa mismunandi skoðanir á því.