Fleiri rannsóknir til að finna ný jarðhitasvæði

Mælingabíll ÍSOR við Hoffell.
Mælingabíll ÍSOR við Hoffell. Ljósmynd/Heimir Ingimarsson

Þörf er á auknum rannsóknum þegar kemur að því að finna ný jarðhitasvæði á Íslandi. Þetta kom fram á fundi ÍSOR undir yfirskriftinni „jarðhitaleit á köldum svæðum“.

Auður Agla Ólafsdóttir jarðfræðingur flutti erindi á fundinum. Þar benti hún á að íslenska ríkið eigi að standa fyrir grunnrannsóknum á sviði jarðhita. Enn séu tækifæri til að auka hlutdeild jarðhitans eftir því sem notkun hafi aukist. Framfarir kalli á sífellda endurskoðun og endurmat á því sem áður voru talin „köld svæði“.

Í nýlegri stöðuskýrslu umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra kemur fram að eftirspurn eftir hitaveituvatni eykst samfara auknum atvinnurekstri og með fólksfjölgun. Ekki liggur þó enn fyrir hvernig heitavatnsþörf verður uppfyllt í fyrirsjáanlegri framtíð. Í skýrslunni er einnig bent á að auka verði þekkingu á jarðhita á lághitasvæðum, á svokölluðum köldum svæðum, á háhitasvæðum og landsvæðum innan gosbeltisins sem eru ekki augljós háhitasvæði.

Starfsmaður ÍSOR að störfum vegna jarðskjálftamælinga á Reykjanesskaga í fyrra.
Starfsmaður ÍSOR að störfum vegna jarðskjálftamælinga á Reykjanesskaga í fyrra. Ljósmynd Egill Árni Guðnason

Finna þarf leiðir til að virkja hitann

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, stjórnaði umræðum á fundinum að loknu erindi Auðar Öglu. Hann spurði hvaða rannsóknir þyrftu helst að fara fram til að auka líkur okkar á að finna ný jarðhitasvæði. Steinunn Hauksdóttir, sviðsstjóri hjá ÍSOR, sagði mikið af rannsóknum hafa farið fram með eldri búnaði, eða -aðferðum. 

„Við höfum þverfaglega nálgun til að rannsaka jarðhitasvæði,“ sagði hún og bætti við að rannsóknirnar snúist um yfirborðsmælingar á jarðeðlisfræðilegum- og jarðfræðilegum eiginleikum. Hún sagði mikilvægt að læra betur um eðli jarðskorpunnar undir Íslandi. „Mörgum stórum spurningum þar er enn ósvarað,“ sagði Steinunn. „Við vitum að það er hiti undir Íslandi. Við þurfum að finna hvaða leiðir eru færar til að virkja þann hita. Þar eru sprungurnar okkar helstu leiðir.“

Fram kom á fundinum að áður fyrr hafi ekki verið litið á vatn undir ákveðnu hitastigi sem sérstaka auðlind. Núna sé önnur staða uppi, meðal annars með fisk- og seiðaeldi þar sem kjörhitastigið geti verið 20 til 30 gráður.

Sömuleiðis var á fundinum minnst á mikilvægi áframhaldandi opinbers stuðnings og sagði Auður Agla að þegar ríkið hafi stigið inn í með innspýtingu hafi veiturnar tekið vel við sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert