„Ég ákvað einfaldlega að skrá mig í þetta Íslandsmót,“ segir Þorbergur Ingi Jónsson, einn fremsti langhlaupari landsins, í samtali við mbl.is. Hann hafnaði í þriðja sæti í Íslandsmeistaramótinu í götuhjólreiðum sem fór fram á Akureyri um liðna helgi.
Þorbergur, sem er þekktari fyrir afrek sín í lengri hlaupum, hafði tekið þátt í einu hjólamóti á Mývatni fyrir um mánuði síðan áður en kom að Íslandsmótinu.
Þorbergur fór í aðgerð á hæl í lok janúar og hefur lítið sem ekkert getað hlaupið síðan. Hann hefur hins vegar hjólað þennan fyrri hluta ársins.
„Ég hjóla bara og svo finnst mér gaman að keppa og hafa eitthvert markmið. Í stað þess að bíða eftir því að verða nógu góður til að hlaupa þá hjóla ég bara og það er fínt,“ segir Þorbergur.
Hann segir að það sé ekki eins og hann hafi hoppað úr sófanum og hjólað af stað:
„Ég er venjulega að keppa í greinum sem eru þrír til 24 tímar. Ég keypti mér alvöru racer í lok apríl og byrjaði að hjóla mikið í maí og júní. Ég finn að ég er að skólast vel til.“
Þorbergur vissi þó ekki við hverju ætti að búast á Íslandsmótinu og segir keppinauta hans flesta mjög sterka hjólreiðamenn. „Þetta kom því að einhverju leyti á óvart en samt var ég alveg búinn að sjá mig fyrir mér á verðlaunapalli. Ég er þannig gíraður einhvern veginn.“
Þorbergur vonast til að geta hlaupið meira og meira næstu vikur og mánuði til að ná góðum undirbúningi fyrir heimsmeistaramót utanvegahlaupara sem fram fer í Tælandi í byrjun nóvember. Þorbergur mun þar, ásamt níu öðrum Íslendingum, etja kappi við fremstu utanvegahlaupara í heimi í 80 kílómetra hlaupi.