Landsvirkjun ætlar að fanga og dæla niður koldíoxíði frá Þeistareykjastöð og jafnframt draga úr losun koldíoxíðs frá Kröflustöð með stýringu á vinnslu þar. Þetta verkefni hefur hlotið heitið Koldís, að því er fram kemur í tilkynningu. Búist er við að framkvæmdir geti hafist á næsta ári og að Koldís verði komin í fullan rekstur árið 2025.
„Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus árið 2025 og er nú þegar komin vel á leið, en kolefnisspor starfseminnar hefur lækkað um 61% frá árinu 2008. Ein lykilaðgerð í þeirri vegferð er að draga verulega úr losun vegna vinnslu raforku með jarðvarma, þar sem mikill meirihluti losunar fyrirtækisins á gróðurhúsalofttegundum er til kominn vegna jarðvarmavinnslu. Með Koldísarverkefninu mun Landsvirkjun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni frá Þeistareykjastöð og skila aftur í jörðu frá árinu 2025,“ segir í tilkynningunni.
Þar er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar:
„Koldís er mikilvægt verkefni sem við hjá Landsvirkjun tökumst á við næstu árin. Það er enn eitt dæmið um mikinn metnað okkar í loftslagsmálum þar sem við höfum sett okkur skýr markmið um kolefnishlutleysi 2025.“
Í tilkynningunni kemur fram að samdráttur í losun frá jarðvarmavinnslu Landsvirkjunar muni hafa bein áhrif á skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
„Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir að losun vegna jarðvarmavirkjana á Íslandi minnki að minnsta kosti um 47% árið 2030, miðað við árið 2005. Landsvirkjun hefur einsett sér að gera enn betur og að losun frá jarðvarmavinnslu fyrirtækisins á Norðausturlandi minnki að minnsta kosti um 60% árið 2025, miðað við árið 2005.“