Mætti á limmósínu í Bása

Limmósínan komin inn í Bása.
Limmósínan komin inn í Bása. Ljósmynd/Aðsend

Það ráku margir upp stór augu um helgina þegar þessi forláta limmósína birtist í Básum á Goðalandi af öllum stöðum. Victor Hjörvarsson eigandi bifreiðarinnar segir það aðallega hafa verið í gríni gert að keyra þessa leið.

„Ég var nú bara uppi á verkstæði seinni part kvölds að brasa og allir félagarnir fóru inn í Bása. Ég hugsaði að það væri kannski skemmtilegra að kíkja á liðið,“ segir Victor og bætir við að húsbíllinn hans hafi verið bilaður. Hann hafi vitað að það væri lítið í ánum og lét því vaða á limmósínunni.

Til að komast í Bása þarf að aka yfir jökulár og er leiðin almennt aðeins fær jeppum og stærri bílum en Victor segist þó hafa keyrt fram og til baka „án nokkurra vandræða“.

Þekkir vel til á svæðinu

„Ég þekki vel til þarna niður frá, hvernig vaðið liggur í ánum og svona. Þetta var smá tæpt en gert fyrst og fremst til að geta hlegið að því,“ bætir hann við.

Þá segir hann það hafa verið mjög fyndið að sjá svipinn á fólkinu í Básum þegar hann mætti á svæðið en enn betra hafi verið að sjá svipinn á þeim sem hann mætti á leiðinni í Bása.

Victor rekur bifreiðaverkstæði í Mosfellsbæ og aðspurður segist hann hafa eignast bílinn, sem er af tegundinni Lincoln Town Car árgerð 1994, í braski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert