Náttúruvá sem þarf að hafa vakandi auga með

Neðansjávarskriður 27–33 úti fyrir ströndum Neskaupstaðar í Norðfirði.
Neðansjávarskriður 27–33 úti fyrir ströndum Neskaupstaðar í Norðfirði. Ljósmynd/Vegagerðin

Seyðisfjörður og Norðfjörður eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg merki um neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af. Vegagerðin bendir á að um sé að ræða náttúruvá sem þurfi að hafa vakandi auga með.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að rannsóknarsjóður stofnunarinnar hafi styrkt verkefni sem fjalli um þær hættur sem vegakerfi og byggð með ströndum fram í Seyðisfirði og Norðfirði geti stafað af flóðbylgjum af völdum skriðufalla.

Skýrslan var unnin af Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og fram kemur að ummerki um neðansjávarskriður séu nokkuð algengar í flestum fjörðum á Austurlandi og ummerki um þær sjáist vel í fjölgeisladýptarmælingum LHÍ. Sambærilegar skriður sé einnig að finna í öðrum landshlutum eins og t.d. á Vestfjörðum.

Flestar skriður í djúpum fjörðum með bröttum hlíðum

„Flestar neðansjávarskriðurnar eru í djúpum fjörðum með bröttum hlíðum. Skriður sem þessar geta komið af stað miklum flóðbylgjum í fjörðunum. Skriður sem hlaupa af landi og út í sjó geta líka valdið hættulegum flóðbylgjum. Dæmi um þetta eru vel þekkt víða um heim en hérlendis hafa slíkar skriður ekki orðið á sögulegum tíma svo vitað sé.

Seyðisfjörður og Norðfjörður eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg merki um neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af. Eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins var að varpa ljósi á stærð og umfang skriðanna, ásamt því að kortleggja og bæta þekkingu á botngerð og strandgerð fjarðanna,“ segir í umfjöllun Vegagerðarinnar. 

Þá segir, að alls hafi 33 skriður verið kortlagðar; 26 í Seyðisfirði og 7 í Norðfirði, og helstu tölulegum upplýsingum safnað, s.s. um flatarmál, mestu lengd, úthlaupshorn o.fl.

Líkur á frekari skriðum þar sem skriður hafa áður fallið

Skriðurnar skiptast í tvo flokka, þ.e. skriður sem fallið hafa af landi í sjó fram og skriður sem fallið hafa úr óstöðugum sethjöllum neðansjávar. Þótt ekki séu til staðfest tilfelli frá sögulegum tíma um neðansjávarskriður í íslenskum fjörðum sýna þessar rannsóknir að slíkar skriður hafa orðið fyrr á tímum. Þær benda einnig til að þar sem skriður hafa fallið eru líkur á frekari skriðum. Hér er því á ferðinni náttúruvá sem þarf að hafa vakandi auga með að sögn Vegagerðarinnar. 

Loks segir að meginniðurstaða verkefnisins sé falin í útgáfu þrennskonar mismunandi korta af fjörðunum báðum, þ.e. jarðfræði- og jarðvárkorti, botngerðarkorti og strandgerðarkorti ásamt jarðfræðiskýrslu.

Gert sé ráð fyrir að þessar grunnathuganir nýtist við almennt mat á jarðvá og umhverfisáhrifum á viðkomandi stöðum og að litið verði til þeirra varðandi skipulag, staðarval og ýmsar framkvæmdir í eða við sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert