Íbúa á Þórshöfn brá í brún þegar hann rakst um helgina á tvö flöskuskeyti á sama degi. Göngugarpurinn Guðjón Gamalíelson gengur oft eftir eyðiströndum Langaness og týnir upp ýmislegt sem rekið hefur á fjörurnar, en þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta skiptið sem hann rekst á skeyti á svæðinu.
Annað bréfið var frá ungum dreng sem var þá búsettur á Neskaupstað, en Guðjón náði sambandi við hann í gegnum samfélagsmiðla og greinir frá því að hann hafi sent flöskuskeytið fyrir um það bil 13 árum.
„Flaskan hafði greinilega legið í fjörunni í dálítinn tíma þar sem hún var þakin mosa og bréfið hafði rifnað út af vatninu þar sem flaskan var mölbrotin, en með hjálp góðra vina náði ég að púsla smá skilaboð úr bréfinu,“ segir Guðjón við mbl.is.
Hitt skeytið barst hingað með hafstraumum frá Skotlandi og hafa tilraunir Guðjóns til að ná sambandi við þann aðila í gegnum samfélagsmiðla ekki gengið jafn vel, en Skotinn hefur ekki svarað honum.
„Kannski hann svari bara í gegnum flöskuskeyti,“ bætir Guðjón við og hlær.
Flöskuskeyti frá Færeyjum virðist eiga póststöð á austanverðu Langanesi þar sem margir hafa rekist á skeyti þaðan í gegnum árin.
„Ég held það hafi verið þrjú ár í röð sem ég fann þar flöskuskeyti frá Færeyjum, það voru greinilega einhverjir krakkar sem sendu þau úr bátsferð þar sem þau voru öll merkt nafni bátsins,“ segir Guðjón.