Viðhaldsframkvæmdir hófust í gær við Suðurbæjarlaug og Ásvallalaug í Hafnarfirði sem hafa áhrif á opnunartíma lauganna.
Vegna þessa verður aukið við opnun í Sundhöll Hafnarfjarðar og hún opin um helgar á meðan framkvæmdum stendur.
Suðurbæjarlaug lokar alveg vegna umfangsmikilla viðhalds- og nýframkvæmda. Stefnt er að opnun laugar í þrepum um miðjan ágúst næstkomandi allt eftir framvindu verks. Nánari fregnir af opnun verða kynntar á vef bæjarins þegar þær upplýsingar liggja fyrir.
Í Ásvallalaug verður 50 m laugin tæmd og því laugarkeri lokað vegna flísaviðgerða. Aðrar laugar, pottar, böð og líkamsrækt Gym Heilsu á 2. hæð verða opin venju samkvæmt. Stefnt er að opnun 50 m laugarkersins að nýju um miðjan júlí.
Vegna þessara framkvæmda verður því aukið við opnun í Sundhöll Hafnarfjarðar og verður hún opin um helgar á meðan framkvæmdum stendur. Á laugardögum verður opið frá kl. 8 til 18 og á sunnudögum frá kl. 8 til 20.