Arnar Grant vísar á bug ásökunum Ara Edwalds, Hreggviðar Jónssonar og Þórðar Más Jóhannessonar um að hann ásamt Vítalíu Lazarevu hafi gert tilraun til fjárkúgunar.
Þremenningarnir hafa kært Vítalíu Lazarevu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins.
Málið snertir samkvæmi í sumarbústað í Skorradal í október 2020 en eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur Vítalía sagt að brotið hafi verið á henni í samkvæminu. Hún birti nöfn Ara, Hreggviðs, Þórðar Más og Arnars Grants með færslu sem hún setti á samfélagsmiðilinn Instagram um ári síðar. Færslan var tekin niður samdægurs.
Arnar Grant vísar þessum ásökunum á bug samkvæmt skriflegri yfirlýsingu þess efnis sem hann lét Vísi í té.
„Að gefnu tilefni:
Ég vísa á bug aðdróttunum þar sem reynt er að bendla mig við fjárkúgun í tengslum við kynferðisafbrotamál. Þetta er fráleit tilraun til að afvegaleiða umræðuna og draga úr trúverðugleika mínum sem lykilvitni í málinu,“ segir Arnar Grant.