Litla systir með stórstjörnunum

Hluti af fólkinu sem ætlar út að styðja Áslaugu Mundu. …
Hluti af fólkinu sem ætlar út að styðja Áslaugu Mundu. Að sjálfsögðu verður hópurinn í viðeigandi klæðnaði.

40 manna fjölskylduhópur ætlar út til Manchester á Evrópumeistaramót kvenna í knattspyrnu (EM) nú í byrjun júní. Yngsti áhorfandinn er rétt rúmlega árs gamall og sá elsti er kominn hátt í áttrætt. Þó að flestir hafi ætlað á mótið áður en ákveðið var hvaða konur myndu keppa fyrir Íslands hönd var það mikill bónus fyrir fjölskylduna þegar ein af þeim var valin í hópinn. 

„Við vissum ekkert að hún yrði í hópnum. Þegar við pöntuðum miðana í nóvember var miði fyrir hana inni í miðatölunni hjá okkur,“ segir Erla Gunnlaugsdóttir, eldri systir Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur sem er í liði Íslands. 

Þegar Erla sá hversu vel Áslaugu Mundu gekk í byrjun Bestu Deildarinnar í maí hugsaði hún að Áslaug Munda ætti ágæta möguleika á að vera valin.

Þetta var því mjög mikil ánægja af því það er svo margar flottar fótboltastelpur sem hefðu getað orðið fyrir valinu,“ segir Erla. 

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir spilar með Breiðabliki.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir spilar með Breiðabliki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil eftirvænting á Egilsstöðum

Áslaug Munda spilar með Breiðabliki og spilaði síðast landsleik í júnímánuði í fyrra. Hún er frá Egilsstöðum og stemmningin í bænum fyrir þátttöku hennar á EM er mikil. Má þar nefna að Erla setti inn færslu á Facebook um ferð fjölskyldunnar á EM og líkaði um 400 manns við færsluna.

„Það er gaman að sjá eftirvæntinguna og stuðninginn í bænum. Íbúarnir eru að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Erla og bætir því við að nokkuð sé um að íbúar þaðan ætli sér á EM, til að mynda stúlkur úr yngri flokkum Hattar.

„Hún er með þessum stórstjörnum og þetta er svolítið óraunverulegt fyrir okkur heima.“

Fjölskylda Áslaugar er spennt fyrir mótinu og er stemmningin á …
Fjölskylda Áslaugar er spennt fyrir mótinu og er stemmningin á Egilsstöðum fyrir EM mikil. Hér eru foreldrar Áslaugar Mundu þau Jóney Jónsdóttir og Gunnlaugur Aðalbjarnarson, systur Áslaugar Mundu þær Björg, Erla og Eyrún, mágar Áslaugar Mundu þeir Anton Helgi Loftsson og Hjörvar Sigurgeirsson auk dóttur Erlu sem heitir Jóney Salný Antonsdóttir.

Þetta snerist náttúrulega allt um fótbolta

Áslaug Munda flutti að heiman aðeins 16 ára gömul og hefur fótboltinn verið í fyrsta sæti hjá henni lengi, að sögn Erlu.

„Við höfum ekki búið á sama stað síðan hún var 15 ára. Maður fór að hitta hana var tvisvar til þrisvar á ári. Þetta snerist náttúrulega allt um fótbolta,“ segir Erla. 

„Hún hefur sýnt mikinn metnað, dugnað og þrautseigju og sigrast á mörgum áskorunum.“

„Hún hefur sýnt mikinn metnað, dugnað og þrautseigju og sigrast …
„Hún hefur sýnt mikinn metnað, dugnað og þrautseigju og sigrast á mörgum áskorunum,“ segir Erla um systur sína. mbl.is/Hákon Pálsson

Vonar að stúkan verði blá

Fjölskylda Áslaugar Mundu hefur fjárfest í nokkrum tugum blárra treyja með föðurnafni Áslaugar Mundu, Gunnlaugsdóttir, og númerinu hennar: 19. 

„Það verður gaman að fara út, vera partur af þessu stuðningsliði og njóta stemmningarinnar í stúkunni sem verður vonandi blá,“ segir Erla og bætir við:

„Kvennafótboltinn verður ekki stærri nema foreldrar fari með stelpurnar sínar og strákana sína á kvennaleiki líka.“

Íslenska liðið mætir því belgíska 10. júlí næstkomandi, Ítalíu 14. júlí og Frakklandi 18. júlí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert