„Þetta er mjög flókin sorg að vinna með“

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri á lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis.
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri á lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis. mbl.is/Arnþór

Ætla má að á sjötta þúsund Íslendinga verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á ári hverju. Enn er ekkert fast fjármagn sem fylgir aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar forvarnir gegn sjálfsvígum og hvetur verkefnastjóri hjá embætti landlæknis stjórnvöld til þess að gera betur. Helst myndi hún vilja sjá miðstöð fyrir forvarnir gegn sjálfsvígum.

Um 40 manns falla fyrir eigin hendi að meðaltali á ári hverju hérlendis. 38 féllu fyrir eigin hendi í fyrra eða 10,2 á hverja 100.000 íbúa. 

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að við hvert sjálfsvíg sitji 135 einstaklingar eftir verulega slegnir,“ segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri á lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis, í samtali við mbl.is og bendir á að ef talan 40 er margfölduð með 135 komi í ljós að þeir sem verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum að meðaltali á ári hverju séu á sjötta þúsund talsins.

„Það eru vinir, fjölskylda, skólafélagar, vinnufélagar, kennarar, námsráðgjafar, gamlir félagar, nágrannar. Það eru allir svo slegnir og velta því fyrir sér hvort þeir hefðu eitthvað getað gert.“

Guðrún Jóna flutti erindi á Norrænni lýðheilsuráðstefnu í Hörpu í gær. Þar sagði hún frá gagnvirku mælaborði um tölfræði sjálfssvíga, ræddi um stöðu aðgerðaráætlunar til að fækka sjálfsvígum á Íslandi og vakti sérstaka athygli á mikilvægi þess sem kallast á ensku „postvention“ eða stuðningi í kjölfar sjálfsvíga.

Vitum að áföll í æsku „skipta gríðarlega miklu“

Guðrún Jóna bendir á að það sé ekkert sérstakt kerfi hérlendis sem haldi utan um fólk eftir að aðstandandi hefur fallið fyrir eigin hendi. Nefnir hún sérstaklega börn í því samhengi og segir að áfallið við það að foreldri falli fyrir eigin hendi sé gríðarlegt. 

„Við erum ekki með neitt kerfi sem heldur utan um þetta. Samt vitum við að áföll í æsku skipta gríðarlega miklu. Í staðinn fyrir að grípa þetta fólk strax, þessi börn og þessar fjölskyldur og halda utan um þær, þá erum við  að slökkva elda og takast á við  möguleg önnur vandamál hjá barninu þegar það verður eldra,“ segir Guðrún Jóna.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við því að þegar ungir einstaklingar falla fyrir eigin hendi geta orðið svona klasasjálfsvíg, þ.e. að fleiri ungmenni falli fyrir eigin hendi. Það er m.a það sem postvention gengur út á, að styðja alla í nærumhverfinu.“

Ekkert fast fjármagn

Aðgerðaáætlun um forvarnir gegn sjálfsvígum var samþykkt af þáverandi heilbrigðisráðherra árið 2018. Ekkert fast fjármagn hefur verið tileinkað áætluninni heldur einungis veitt tímabundið.

„Fjármagnið hefur fyrst og fremst farið í að greiða einum starfsmanni hjá embættinu sem heldur utan um áætlunina laun en aðgerðir í áætluninni hafa ekki verið kostnaðargreindar eða fjármagn veitt til að ljúka þeim,“ segir Guðrún. „Við erum að missa svo marga á hverju ári í sjálfsvígum og við getum gert betur, þetta er svo máttlaust. Ég myndi vilja að stjórnvöld myndu átta sig á því hvað þetta er mikilvægt.“

Hún veltir því upp að ráðist hafi verið í miklar aðgerðir til þess að fækka slysum á sjó og í umferðinni og að það heyri nú undir Samgöngustöfu. Guðrún myndi vilja sjá sambærilega stofnun í kringum sjálfsvíg, bæði forvarnir og utanumhald eftir sjálfsvígþar sem væri sett fjármagn, skýr markmið og unnið heildrænt að málaflokknum.

„Af hverju er ekki til samgöngustofa sjálfsvíga?“ spyr Guðrún Jóna.

„Eins er með þá sem gera tilraun til sjálfsvígs, þeir  eru í meiri hættu en aðrir. Við eigum að halda utan um þetta fólk og fylgja því markvisst eftir. Það hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að það skilar árangri. Við getum gripið þetta fólk, við getum fundið það og við eigum að gera það.“

Missti sjálf son sinn í sjálfsvígi

Margar af þeim aðgerðum sem nefndar eru í aðgerðaáætluninni byggja á fræðslu og þarf að halda þeim við. Til þess þarf fjármagn og mannafla.

„Þó að maður loki aðgerðum þá eru þær þess eðlis að það þarf að fylgja þeim eftir. Það kostar líka. Við þurfum miðstöð – samgöngustofu sjálfsvíga,“ segir Guðrún Jóna og bendir á að slíkar stofnanir séu til staðar í nágrannalöndunum.

Guðrún Jóna brennur fyrir málefninu.

„Ég missti sjálf son minn í sjálfsvígi, frumburðinn minn, árið 2010 svo þetta er efni sem er mér mjög hugleikið,“ segir Guðrún Jóna.

Spurð hvort það sé erfitt eða valdeflandi að vinna með forvarnir gegn sjálfsvígum, hafandi þessa erfiðu reynslu á bakinu segir Guðrún:

„Ég hefði svo sannarlega viljað sleppa þessari reynslu en hún gagnast. Mér finnst ekkert erfitt að vinna að verkefnunum. Ég vinn líka við að styðja aðstandendur og það er krefjandi. Þú upplifir svona vanmátt því sorgin er svo gríðarleg og þú getur ekkert gert annað en ganga við hlið fólks. Þetta er mjög flókin sorg að vinna með.“

Mikilvægt að segja frá líðan sinni

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.  

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert