Skóflustunga var tekin að nýjum leikskóla í Vogabyggð í dag. Að sögn Reykjavíkurborgar er leikskólinn nefndur „ný ævintýraborg“, sem er ein fjögurra „ævintýraborga“ eða leikskóla sem rísa til þess að fjölga leikskólaplássum.
„Þær eru mikilvægur þáttur í þeirri vegferð að brúa bilið og bjóða börnum yngri en 18 mánaða pláss á leikskólum borgarinnar. Ævintýraborgirnar eru í færanlegum húsum sem hæfir vel nútímaleikskólastarfi,“ segir í tilkynningu.
Stefnt er að því að verkinu ljúki í október og í framhaldinu væri hægt að taka á móti um 100 börnum á aldrinum 1-6 ára, á sex deildum leikskólans. Opnun nýrra leikskóla er liður í aðgerðaráætluninni Brúum bilið, sem hefur að markmiði að fjölga leikskólarýmum í Reykjavík.
Einar mætti á svæðið í dag ásamt ýmsum fulltrúum verkefnisins og tíu leikskólabörnum frá Steinahlíð. Tóku þau fyrstu skóflustunguna.