Börn fá frítt í sund og frístundastyrkir hækkaðir

Laugardalslaug.
Laugardalslaug. mbl.is/Sigurður Bogi

Borgarráð samþykkti í dag að börn á grunnskólaaldri fá að fara frítt í sundlaugar Reykjavíkurborgar frá og með 1. ágúst sem og að frístundastyrkir hækki um 50 prósent fyrir hvert barn. Þá verður miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug.

Frítt í sund fyrir börn

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar lagði til bæði að frítt yrði í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og að miðnæturopnun yrði á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug frá 4. ágúst til áramóta. Samþykkti borgarráð tillöguna á fundi sínum í dag. Þetta er í takt við fyrirheit meirihlutaflokkanna.

Í samstarfssáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar segir í fyrstu aðgerðum að ókeypis verði í sund fyrir börn á grunnskólaaldri; aðgengi borgarbúa á öllum aldri að sundlaugum borgarinnar sé brýnt lýðheilsumál. Þessu verður nú hrint í framkvæmd og verður jafnframt boðið upp á endurgreiðslu á kortum sem foreldrar og forráðamenn hafa keypt, jafnt 10 miða kortum og 6 eða 12 mánaða kortum fyrir börn. Kostnaðarauki vegna þessa á árinu er áætlaður 12 milljónir króna auk allt að 7,4 milljóna í endurgreiðslur. Kostnaðarauki fyrir árið 2023 er áætlaður 30 milljónir króna.

Frítt verður í sundlaugar Reykjavíkurborgar fyrir börn á grunnskólaaldri frá …
Frítt verður í sundlaugar Reykjavíkurborgar fyrir börn á grunnskólaaldri frá og með 1. ágúst 2022. Borgarráð samþykkti í dag svohljóðandi tillögu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Einnig var samþykkt tillaga um miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug, frá og með 4. ágúst næstkomandi, til áramóta. mbl.is/Sigurður Bogi

Miðnæturopnun í Laugardalslaug

Miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum í Laugardalslaug verður tilraunaverkefni til áramóta og lagt verður mat á reynsluna við undirbúning fjárhagsáætlunar 2023. Er verkefnið einnig hluti af fyrstu aðgerðum meirihlutans samkvæmt meirihlutasáttmála og gera má ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa til áramóta verði 2,5 milljónir króna, um 6 milljónir á ársgrundvelli. Vonast er til að miðnæturopnunin geri góða sundlaugamenningu borgarinnar enn litskrúðugri og skemmtilegri.

Frístundastyrkur hækkar um 50 prósent fyrir hvert barn

Einnig hefur borgarráð samþykkt að hækka frístundastyrk í 75.000 krónur fyrir hvert barn þann 1. janúar 2023. Frístundastyrkurinn er ætlaður 6-18 ára börnum og unglingum með lögheimili í Reykjavík. Kostnaður borgarinnar vegna þessarar hækkunar nemur 443 milljónum króna.

Borgarráð hefur samþykkt að hækka frístundastyrk í 75.000 krónur fyrir …
Borgarráð hefur samþykkt að hækka frístundastyrk í 75.000 krónur fyrir hvert barn þann 1. janúar 2023. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hægt er að nýta styrkinn fyrir íþrótta-, lista- og tómstundastarf. Samþykktin byggir á tillögu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sem samþykkt var í því ráði síðastliðinn mánudag og er í samræmi við ákvæði í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar auk þess sem fleiri flokkar í borgarstjórn hafa kynnt sambærileg áform.

Markmiðið með hækkun frístundastyrksins er að stuðla að jöfnuði, heilsu og hamingju. Mikilvægt er að styrkurinn nýtist fyrst og fremst til að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu tómstundastarfi. Íþróttabandalag Reykjavíkur mun hér eftir sem hingað til fylgjast með þátttökugjöldum félaga sinna og gæta þessa að iðkendagjöld þróist í takt við almennt verðlag þannig að hækkun frístundastyrksins renni fyrst og fremst til barnafjölskyldna í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert