Byggt beggja vegna hraðbrautar

Unnið er að byggingu nýrrar garðyrkjumiðstöðvar Garðheima í Suður-Mjódd og …
Unnið er að byggingu nýrrar garðyrkjumiðstöðvar Garðheima í Suður-Mjódd og hinum megin brautar byggt hús fyrir Deloitte. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Byggingarframkvæmdir eru beggja vegna Reykjanesbrautar um þessar mundir. Framkvæmdirnar eru í tveimur sveitarfélögum, annars vegar í Suður-Mjódd í Reykjavík og hins vegar við Dalveg í Kópavogi.

Hafnar eru framkvæmdir við garðyrkjumiðstöð og verslun Garðheima í Álfabakka 6 í Suður-Mjódd, skammt frá íþróttasvæði ÍR. Það er lóðin sem sést í forgrunni myndar. Þar fékk bifreiðaumboðið Hekla vilyrði hjá borginni fyrir stórri lóð sem fyrirtækið að lokum afþakkaði. Nú stendur til að íbúðabyggð rísi á núverandi lóð Garðheima við Stekkjarbakka. Hús Garðheima verður rúmlega 7.300 fermetrar að stærð.

Tvær aðrar lóðir eru við Álfabakka þar sem gatan liggur sunnan Reykjanesbrautar og vestan Breiðholtsbrautar. Fyrirtækið Eignabyggð hefur vilyrði hjá borginni fyrir lóðinni Álfabakka 2. Fyrirtækið áformar að byggja þar 10 þúsund fermetra hús fyrir verslun, lager og skrifstofur. Viðræður hafa verið við ýmsa aðila um leigu á væntanlegu húsi. Á milli er tæplega sjö þúsund fermetra lóð, númer 4, þar sem heimilt verður að byggja hús fyrir atvinnu- og þjónustustarfsemi. Reykjavíkurborg auglýsti byggingarréttinn í apríl og bárust sex tilboð. Hæsta tilboðið var frá Reykjastræti ehf., 156 milljónir kr. Ekki er búið að ganga frá sölu á lóðinni.

Hinum megin Reykjanesbrautar, við Dalveg í Kópavogi, er fasteignafélagið Íþaka að byggja fimm hæða skrifstofu- og þjónustuhús. Deloitte hefur tekið á leigu hluta hússins og mun flytja skrifstofur sínar þangað úr Turninum í Kópavogi. Á þessari lóð var áður garðyrkjustöðin Storð. Gert er ráð fyrir byggingu tveggja annarra atvinnu- og þjónustuhúsa á lóðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert