Gott vald á íslensku og/eða ensku

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus við Háskóla Íslands spyr sig hvort háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi farið að lögum, í auglýsingu fyrir nýtt starf í ráðuneyti sínu.

„Mér finnst fullkomin spurning hvort þetta samræmist lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls,“ skrifar Eiríkur í hópnum Málspjalli á Facebook og vísar til áttundu greinar laganna:

„Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“

Um er að ræða starf „talnaspekings“ sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur auglýst.

Fram kemur í auglýsingunni að krafa sé gerð um gott vald á íslensku og/eða ensku.

Eiríkur Rögnvaldsson spyr sig hvort ráðherra fari að lögum.
Eiríkur Rögnvaldsson spyr sig hvort ráðherra fari að lögum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrt brot á lagagreininni

Vísar Eiríkur svo til þess að samkvæmt auglýsingu felist meðal annars í starfinu:

  • Framsetning, skilgreining og mat á mælikvörðum
  • Árangursmat á þeim verkefnum sem ráðuneytið stýrir
  • Samvinna með hópum um forgangsverkefni ráðuneytis
  • Undirbúningur fjármálaáætlunar og fjárlaga
  • Miðlun upplýsinga hvoru tveggja innan og utan ráðuneytis

„Ég get ómögulega séð að hægt sé að sinna þessum verkefnum án góðrar kunnáttu í íslensku. Skilgreining og mat á mælikvörðum felur í sér ritun texta sem hlyti að verða á ensku. Það væri ekki hægt að meta árangur verkefna ráðuneytisins nema skýrslur um þau væru á ensku. Öll samvinna við hópa um forgangsverkefni yrði að fara fram á ensku,“ skrifar hann.

„Skjöl í tengslum við undirbúning fjárlaga yrðu að vera á ensku. Öll upplýsingamiðlun innan og utan ráðuneytis yrði á ensku. Óhjákvæmilega leiðir skortur á íslenskukunnáttu í þessu starfi til þess að stjórnsýsla ráðuneytisins verður að verulegu leyti á ensku sem er skýrt brot á tilvitnaðri lagagrein.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert