Merki um stórar skriður sem hafa þverað firðina

Kortið sýnir eldvirkni og jarðvá. Fjólubláu svæðin sýna neðansjávarskriður á …
Kortið sýnir eldvirkni og jarðvá. Fjólubláu svæðin sýna neðansjávarskriður á Austurlandi. Slíkar skriður eru einnig algengar við landgrunnsbrúnina. Kort/Hafvefsjá ÍSOR

Ögmundur Erlendsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), segir að nýrri skýrslu ÍSOR, sem fjallar um þær hættur sem stafað geti af flóðbylgjum af völdum skriðufalla í Seyðisfirði og Norðfirði, sé fyrst og fremst ætlað að benda á umrædda jarðvá og kortleggja hana.

Hann tekur fram að frekari rannsókna sé þörf.

„Þetta er eitthvað sem menn þurfa að vera meðvitaðir um og vita af. Þetta hefur ekki verið kortlagt áður eða bent á þetta, en við höfum kortlagt þessar skriður í fjörðum víða um landið og reynt að fá smá yfirsýn yfir það,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Rannsóknin beindist að Seyðisfirði og Norðfirði, en firðirnir eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg merki um neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af.

Alls hafa 33 skriður verið kortlagðar, eða 26 í Seyðisfirði og 7 í Norðfirði.

Seyðisfjörður árið 2020 eftir aurskriðu.
Seyðisfjörður árið 2020 eftir aurskriðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Neðansjávarskriður víðsvegar í fjörðum landsins

Aðspurður segir Ögmundur að slíkar neðansjávarskriður séu í fjörðum víða á Íslandi.

Fjólubláu svæðin sýna neðansjávarskriður á Vestfjörðum.
Fjólubláu svæðin sýna neðansjávarskriður á Vestfjörðum. Kort/Hafvefsjá ÍSOR

„Þær eru í fjörðum víða á Austfjörðum, Vestfjörðum og Eyjafirði. Bæði skriður sem hafa fallið af landi í sjó fram og svo bara neðansjávarskriður. Stundum sér maður merki um skriður sem hafa komið af landi í sjó.“

Ögmundur segir að Seyðisfjörður og Norðfjörður hafi verið valdir vegna fjölda skriða, sem og að aurskriður sem féllu úr botnum annars vegar niður í Botnahlíð og á Austurveg árið 2020 hafi spilað inn í valið.

Flóðbylgja hafi líklegast fylgt stærstu skriðunni

Að sögn Ögmundar eru neðansjávarskriður ekki mikil jarðvá þó þær geti verið það. Rannsóknin snúi að liðnum atburðum og henni sé ætlað að varpa frekara ljósi á hvað slíkir atburðir hafa í för með sér.

„Þetta er engin stór vá. Það getur verið það en þetta hefur ekki gerst að okkur vitandi á sögulegum tíma. Þetta geta verið skriður sem eru eldri en þúsund ára, en líklega eru einhverjar yngri þó að við höfum ekki orðið vör við atburðina, eða þá að þær hafi ekki endilega skapað flóðbylgjur.

Kannski eru þetta skriður sem hafa fallið í minni einingum eða skriður sem hafa farið hægt yfir firðina. En það eru stórar skriður inn á milli sem hafa þverað firðina, eins og stærsta skriðan í Seyðisfirði. Við teljum að einhver flóðbylgja hafi fylgt henni að öllum líkindum.“

Aðspurður segir hann að slík flóðbylgja myndi dreifa sér um allan fjörðinn og hann bendir á snjóflóðið við Flateyri sem hafnaði í sjónum og skapaði flóðbylgju sem skall á höfnina, sem dæmi um afleiðingar slíkra flóðbylgja.  

Mörg dæmi um hættuna frá öðrum löndum

Ögmundur segir að þrátt fyrir að okkur skortir vitneskju frá sögulegum tíma um neðansjávarskriður í íslenskum fjörðum þá sýni rannsóknir að hættan er fyrir hendi. Hætta fyrir sjófarendur, nærliggjandi sveitarfélög, mannvirki og samgöngukerfi fjarðanna. 

Mörg dæmi séu um það í Noregi, Grænlandi og víðar. Sem dæmi bendir hann á flóðbylgjuna sem skall á þorp í Noregi sem varð af völdum neðansjávarskriðu árið 2014. Flóðbylgjan olli talsverðu eignatjóni. 

Flóðbylgja af völdum neðansjávarskriðu skall á þorpið Statland í Noregi …
Flóðbylgja af völdum neðansjávarskriðu skall á þorpið Statland í Noregi árið 2014.

Þá bendir hann á flóðbylgju af völdum berghlaups sem átti sér stað árið 2017 í Grænlandi. Flóðbylgjan skall á bæinn Nuugaatsiaq á vesturströnd Grænlands með þeim afleiðingum að ellefu hús eyðilögðust og fjórir létu lífið.

Inni á hafsbotnsvefsjá ÍSOR er hægt að sjá kortlagða eldvirkni og jarðvá á hafsbotni, þar á meðal neðansjávarskriður víða umhverfis landið.

Seyðisfjörður og Norðfjörður. Firðirnir eru merktir með rauðum línum.
Seyðisfjörður og Norðfjörður. Firðirnir eru merktir með rauðum línum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert